Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

15.04.2013 05:58

Nú er lag - Höldum upp á hundrað ára afmælið

Í síðustu tveim Dagskrám eru greinar tveggja kvenna um íþróttahúsið á Stokkseyri og lýsa þær því ekki fagurlega. Þessi skrif kvennanna urðu mér hvatning til að benda bæjarstjórn Árborgar og reyndar öðrum íbúum sveitarfélagsins á þörfina á að standa við fyrirheit um uppbyggingu skólans á Eyrarbakka. Nú er lag, segi ég, til að hefja undirbúning að endurreisn þessa gamla skólaseturs í tengslum við byggingu íþróttahúss á Bakkanum,sem þjónaði bæði Stokkseyri og Eyrarbakka. Í þeirri framkvæmd væri reyndar gætt þess jafnræðis að hafa sundlaug á Stokkseyri, sem reyndar er fyrir hendi, en byggja síðan veglegt íþróttahús á Eyrarbakka um leið og  þar yrði byggt frambúðar húsnæði fyrir skólann.

Á árinu 1913 var tekið í notkun nýtt skólahús á Eyrarbakka.  Þarna var um að ræða tvær kennslustofur, gang og litla geymslukompu. Ekki var þar gert ráð fyrir sérstöku afdrepi fyrir kennarana, né heldur salernis og annari hreinlætisaðstöðu. Þetta hús verður sem sé eitthundrað ára á sumri komanda,  þettya er miðhluti skólabyggingarinnar á Eyrarbakka. Vestasti hlutinn var byggður og tekinn í notkun árið 1952, á hundrað ára afmæli skólans. Eystri hlutinn er síðan frá 1981, traust bygging og gerð til að standast jarðskjálfta og aðra vá. Það væri reisn yfir Árborgurum, ef þeir gerðu það til að minnast þessa hundrað ára afmælis, að hefja undirbúning að myndarlegri lausn á húsnæðisvanda skólans, svo búið væri að hugsa málið til enda,þó framkvæmdir bíði síns tíma og betri fjárhags sveitarfélagsins.

Fyrir fáum árum, þegar rætt var um framtíð Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, var gert ráð fyrir því að hefja fyrst uppbyggingu skólahúsnæðisins á Eyrarbakka og síðan að því loknu að gera húsnæði skólans á Stokkseyri sömu skil, enda þar miklu yngra hús. Þetta breyttist á einni nóttu og skólahús byggt með hraða miklum á Stokkseyri, enda talið að skólahúsnæðið þar, sem tekið var í notkun árið 1951 væri stórhættulegt og ætti helst að rífa það niður. Nú er ákveðið að setja lyftu í þetta sama hús fyrir mikla peninga og þar hefur starfsemi verið aukin og á að auka frekar. Gaman væri fyrir okkur íbúa í Sveitarfélaginu Árborg að vita  hvernig þetta húsnæði hefur verið endurbætt svo að fylla megi það af börnum ? En svo ég komi aftur að upphafinu. Væri ekki ráð að hafa samband við Staðarhaldarann okkar á Bakkanum hann Sigurgeir Ingólfsson og athuga hvort ekki sé hægt að leysa íþróttahússþörfina á Stað, meðan varanleg lausn er ekki komin á þeim málum.

Ég sem þetta skrifa hóf kennsluferil minn í nýju og ófullgerðu skólahúsi á Stokkseyri haustið 1951 og bjó fyrstu mánuðina  í einu herbergi á efri hæð skólans . Á Stokkseyri var ég í sex ár, síðan var ég við kennslu og skólastjórn á Eyrarbakka til 1996, eða í 39 ár þykist svolítið þekkja fortíð þessara mála. Alla tíð hefur verið reiknað með að jafnræðis ætti að gæta með þessum byggðum hér á ströndinni og ég vona að svo verði áfram.

 

Óskar Magnússon, Eyrarbakka  -  Dagskráin fimmtudagurinn 11. apríl 2013

 

Óskar Magnússon, Eyrarbakka

 

 

 

Barnaskólinn á Eyrarbakka. Elsti hlutinn var byggður 1913. Hlutinn sem næst er var byggður 1952.

 

 

Skólastjórar við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrr og nú sem voru viðstaddir á 150 ára afmælisdegi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri 2012. Elsti starfandi barnaskóli á Íslandi og hóf starfsemi 1852.

F.v.: Önfirðingurinn Óskar Magnússon sem var kennari á Stokkseyri 1951 - 1957, kennari á Eyrarbakka 1957 - 1968 og skólastjóri á Eyrarbakka 1968 - 1996, Theódór Guðjónsson, f.v. skólastjóri á Stokkseyri, Barðstrendingurinn og f.v. skólastjóri, Arndís Harpa Einarsdóttir, Magnús J. Magnússon og f.v. skólastjóri Páll Léó Jónsson. Ljósm.: Árborg.is

 

 

Skráð af: Menningar-Staður