Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

15.04.2013 05:51

Þetta verður gott sumar

„Já, ég er bjartsýnn á gott sumar,“ segir Finnur Kristjánsson kaupmaður í Vesturbúð á Eyrarbakka aðspurður um horfur í verslun á Eyrarbakka. „Það er að kvikna líf.“

Finnur segist verða var við aukna umferð ferðamanna. „Ég er sannfærður um gildi Suðurstrandarvegarins enda finnum við fyrir því að hingað koma erlendir ferðamenn í auknum mæli beint af flugvellinum í Keflavík,“ segir hann. 

Utan hins hefðbundna viðskiptavinar úr þorpinu segir Finnur að fjölmargir Íslendingar stoppi í Vesturbúð, ekki síst í bíltúrnum á ferð um Suðurland, svo sem um helgar. Finnur segir það skipta máli að fólk hafi fleiri viðkomustaði og er ánægður með opnun upplýsingamiðstöðvar í þorpinu, og önnur jákvæð teikn séu á lofti um frekari verslun í sumar.

Og það er líka ýmislegt hægt að fá í verslun eins og Vesturbúð. Í vetur hófu þau að selja pizzur, bakaðar á staðnum. „Já, Rizzo pizzurnar renna út. Við byrjuðum að selja þær í desember, þetta var eiginlega jólamaturinn hérna,“ segir hann kankvís. Enda tekur það ekki nema um fjórar mínútur að afgreiða pizzurnar, eldheitar og eldbakaðar úr ofninum. 

 

Sunnlenska fréttablaðið greinir frá.

 

 

Finnur Kristjánsson kaupmaður í Vesturbúð á Eyrarbakka við pizzaofninn sem hann hefur komið upp í versluninni. Ljósm.: sunnlenska.is/Vignir Egill

 

Skráð af: Menningar-Staður