Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

18.04.2013 05:36

Mikil gróska í menningarmálum um allt land

Yfir hundrað fulltrúar frá öllum landshlutum sóttu ráðstefnuna  Menningarlandið 2013,  sem fór fram á Kirkjubæjarklaustri 11. og 12. apríl sl. Haldin voru fjölmörg erindi um reynsluna af menningarsamningunum, áætlanir og framtíðarsýn ýmissa aðila í landshlutunum og fleira. Ráðstefnugestir voru sammála um mikilvægi farsæls samstarfs ríkis og landshlutasamtaka sveitarfélaganna í menningarmálum. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók þátt í ráðstefnunni og í máli hennar kom eftirfarandi m.a. fram:

„Vaxandi áhugi landsmanna á menningarmálum er greinilegur á Íslandi á undanförnum árum og einnig skilningur á að þessi málaflokkur getur skapað atvinnu líkt og aðrar atvinnugreinar, - haft bein og óbein áhrif í því sambandi. Kortlagning hagrænna áhrifa í skapandi greinum hefur opnað augu margra fyrir þessum þætti um leið og menningarleg rök fyrir markvissum stuðningi eru almennt viðurkennd. Fyrst og síðast byggist þó frumsköpun og fagmennska í menningarlífinu á þeim fjölmörgu sem leggja lóð á vogarskálarnar í þessu sambandi og fyrir það ber að þakka.“ 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Menningarráð Suðurlands í samstarfi við önnur menningarráð landsbyggðarinnar stóðu að ráðstefnunni. Megintilgangur hennar var að ræða framkvæmd og framtíð menningarsamninga ríkis og sveitarfélaga, sem og samstarf ríkis og sveitarfélaga við menningarráðin, sem stofnuð hafa verið um land allt á undanförnum árum í kjölfar menningarsamninganna.

Samningarnir, sem eru sjö talsins í jafnmörgum landshlutum, fela í sér markvissan stuðning ríkissjóðs við menningarstarf og menningarferðaþjónustu gegn mótframlagi sveitarfélaga og einkaaðila í héraði. Menningarsamningarnir renna allir út á þessu ári og því var efnt til ráðstefnunnar til að meta reynsluna af þeim og gera áætlanir um framhaldið, m.a. með tilliti til sóknaráætlana landshluta.

Mikil ánægja með ráðstefnuna Menningarlandið, sem fór fram á Kirkjubæjarklaustri.

 

Katrín Jakobsdóttir, mennta og menningarmálaráðherra.

 

Af: www.stjornarrad.is

 

Skráð af: Menningar-Staður