Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

19.04.2013 07:18

Labbað um gömlu höfuðborgina

Söguperlur  -  Þorpin Eyrarbakki og Stokkseyri eru samofin verslunar- og útgerðarsögu þjóðarinnar. Nú er boðið upp á leiðsögn um svæðið.

Eyrarbakki og nágrenni hafa löngum verið vinsælir viðkomustaðir innlendra og erlendra ferðamanna. Þorpið skipar stóran sess í verslunarsögu þjóðarinnar, stendur við fallega fjöru og býður upp á fjölda merkilegra safna. Nýlega opnaði Siggeir Ingólfsson ferðamiðstöð í Stað, félagsheimili Bakkans, þar sem fást upplýsingar og ferðabæklingar fyrir ferðamenn og sögulegar leiðbeiningar um "Stokkseyrarbakka". Siggeir býr yfir mikilli þekkingu á sögu svæðisins og leiðist aldrei að segja ferðamönnum skemmtilegar sögur frá því markverðasta sem tengist því. "Ég er fæddur og uppalinn á þessum slóðum og þekki þær eins og handarbakið á mér. Einnig varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta mikið af gömlu fólki í æsku minni sem sagði mér sögur. Ég er minnugur maður og miðla þeim nú til gesta sem heimsækja okkur."

Siggeir hefur um nokkurt skeið leiðbeint ferðamönnum um Eyrarbakka, Stokkseyri og nærliggjandi svæði. "Gömlu kotin í Skúmsstaðahverfi frá seinni hluta nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu eru óendanlegt sögu- og myndefni fyrir ferðamenn og kvikmyndagerðarfólk. Ekki má gleyma Húsinu, elsta timburhúsi landsins, eða Eyrarbakkakirkju. Verslunarsaga Eyrarbakka er mjög merkileg en frá 1890 til 1910 var þorpið eiginlega höfuðborg Íslands. Hingað komu kaupskipin og verslun fór fram á vorin og haustin. Stokkseyri á sér síðan mikla útgerðarsögu sem gaman er að segja frá."

Siggeir hefur opnað upplýsingamiðstöð í gamla félagsheimilinu þar sem mjög góð aðstaða verður fyrir ferðamenn.

"Ég mun vera með reglulegar ferðir hér í allt sumar þar sem ég mun meðal annars bjóða upp á göngur um þorpin tvö. Boðið verður upp á þrjár mismunandi og mislangar skoðunarferðir sem ættu að hæfa öllum aldurshópum. Fólk klæðir sig eftir veðri og við löbbum um þorpin, meðfram sjónum og eftir ýmsum sögufrægum slóðum."

 

Fréttablaðið föstudagurinn 19. apríl 2013.

 

 

 

 

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður