Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

19.04.2013 21:42

VORGÖNGUR UM SÖGUSVIÐ -JÓJÓ- OG -FYRIR LÍSU- Í BERLÍN

Steinunn Sigurðardóttir. Ljósm.: Þórir Ingvarsson.

 

 - VORGÖNGUR UM SÖGUSVIÐ JÓJÓ OG FYRIR LÍSU Í BERLÍN

 

Vorgöngurnar:

sunnudaginn 21. apríl kl. 12 

miðvikudaginn 24. apríl kl. 12 

Mæting við Südstern í Kreuzberg. 

 

Nú þegar vorið er komið í Berlín, eftir kaldasta vetur í 130 ár, taka stallsysturnar Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur og Júlía Björnsdóttir fjölfræðingur upp þráðinn þar sem frá var horfið í haust og ganga um söguslóðir nýjustu skáldsagna Steinunnar, Jójó og Fyrir Lísu.

 

Vorið í Berlín er aðalárstíð bókanna, töfratíminn þegar líf og litir spretta fram úr hverju borgarhorni, eins og hendi sé veifað, og fólkið kemur fram úr vetrarfylgsninu og spókar sig undir blómstrandi trjánum.  Þessi árstíð rímar við umturnaðan huga söguhetjunnar, Martins Montags, geislalæknis, þegar hann ber kennsl á sjúkling sinn, Jójómanninn sem sat fyrir honum í Viktoriapark þegar hann var átta ára að koma heim úr skólanum.

Aðalvettvangur göngunnar er Kreuzberg, heimavöllur söguhetjunnar Martins Montag, og heimavöllur höfundar, sem flutti til Berlínar fyrir nokkrum árum.  Hverfið er sérlega fjölbreytt og skrautlegt, og hefur á síðustu árum orðið eitt hið vinsælasta í Berlín.  Gangan hefst við Sudstern, þar sem leiði Sommer og Luft, ímyndaðra kjörforeldra Martins Montags, eru skoðuð.  Meðal viðkomustaða er Tempelhof-flugvöllurinn, sem lagður var niður og gerður að útivistarflæmi.  Enn er hægt að valsa um upprunalega mynd, með flugbrautum og merkingum, áður en jarðýturnar taka til starfa.  

Kaffi- og bjórhlé er gert í Marheineke-Markthalle við Bergmannstrasse.  Á því markaðstorgi er hægt að fá margra þjóða snarl og bakkelsi.  

Undurfallegur Viktoriapark er þá skammt undan, og svo bjórgarðurinn Brachvogel, þar sem gangan endar, en það er sá staður þar sem vinirnir Martin læknir og Martin franski, fyrrum sjúklingur hans og fyrrum róni, hittast til þess að skvaldra á laugardögum.  

Í göngunum er fléttaður saman fróðleikur um Berlín, um viðkomustaði og um skáldsögurnar Jójó og Fyrir Lísu, og höfundur les tvo stutta kafla úr bókunum.  Í hverri göngu hafa nýir fróðleiksmolar frá þátttakendum bæst við, sem erfitt væri að finna í hefðbundnum leiðsögubókum, og halda Steinunn og Júlía þeim að sjálfsögðu upphátt til haga, um leið og þær vonast eftir meiri fróðleik.  

 

Vorgöngurnar:

sunnudaginn 21. apríl kl. 12 

miðvikudaginn 24. apríl kl. 12 

Mæting við Südstern í Kreuzberg. 

 

Í Berlín. F.v.: Júlía  Björnsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir.

Frá göngu um söguslóðina í Berlin í haust.

Stokkseyringarnir; Ingis Ingason og frú eru önnur og þriðji f.v.

Þriðja frá hægri er Eyrbekkingurinn Júlía Björnsdóttir. Önnur frá hægri er Steinunn Sigurðardóttir.

Lengst til hægri er Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Þýskalandi með búsetu í Berlín.

Ljósm.: Þórir Ingvarsson.

 

Sráð af:  Menngar-Staður