Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

22.04.2013 23:06

Konubókastofa á Eyrarbakka

Ég heiti Rannveig Anna Jónsdóttir, kölluð Anna, og er frá Túni á Eyrarbakka en fædd og uppalin í Vatnsdal í Austur Húnavatnssýslu.

Frá því að ég var barn hef ég haft mjög mikinn áhuga á bókum. Ólst upp við það að bækur voru út um allt á heimilinu og iðulega voru þær umræðuefnið þegar gestir komu til pabba og mömmu.
Þegar  ég var orðin fullorðin fór ég í Almenna Bókmenntafræði við HÍ og síðan í nám í menningarfræði við Háskólann í Arhus.

Þegar ég var í Háskóla Íslands hafði ég kennara sem er nú prófessor og heitir Helga Kress. Hún beindi sjónarhorni mínu að skrifum kvenna og talaði mikið um það hversu mikið af verkum íslenskra kvenna hefðu farið forgörðum og þær hlotið litla viðurkenningu bókmenntaheimsins.
Nokkrum árum seinna var ég að skipuleggja ferð með fjölskyldu minni um England. Allan veturinn lá ég í bókum um landið og rakst þá á safn í suður Englandi sem var með bókum eftir breskar konur skrifaðar á árunum 1700-1830. Þetta vakti mikla athygli mína og fór svo að ég fór og skoðaði þetta safn. Það var einungis í einu herbergi en upplifun mín var mjög sterk.
Þegar  ég kom heim úr ferðinni fór ég markvisst að safna bókum eftir íslenskar konur með það að markmiði að opna slíkt safn hér Íslandi. Núna eru 10-12 söfn tileinkuð rithöfundi á Íslandi en það eru allt karlhöfundar.  Ég vissi að þetta væri gott markmið en einnig vissi ég að það yrði erfitt að koma þessu á laggirnar vegna kostnaðar. Lengi vel var ég bara í því að finna ódýrar bækur í safnið og eins fóru vinir og ættingjar að gauka að mér bókum. Starfsmenn Bókasafnsins á Selfossi og á Eyrarbakka hafa stutt vel við bakið á mér og hvatt mig áfram og eins Bjarni Harðarson bóksali. Hefur þetta fólk einnig verið að láta mig fá bækur.

Í apríl á seinasta ári var sýnt viðtala við mig í Landanum og eftir það fóru bækur að streyma til mín í litla húsið mitt alls staðar af landinu.  Dóttir mín skráði bækurnar fyrir mig síðast liðið sumar og höfum við verið að bæta við  í nánast í hverri viku. Stundum hafa pokar með bókum beðið eftir mér þegar ég hef verið að koma heim og eins hafa nágrannar mínir verið að taka á móti bókum þegar enginn hefur verið heima. Fyrir jólin var orðið ansi þröngt og erfitt að hafa yfirsýn yfir bækurnar. 

Þegar ég frétti að herbergi sem Landsbankinn var með í Blátúni á Eyrarbakka var að losna dreif ég mig í að senda umsókn til sveitarfélagsins Árborgar og falast eftir herberginu. Það gekk eftir og núna er búið að koma fyrir hillum og raða í þær. Það er líka mjög gaman að bókasafn Árborgar á Eyrarbakka er á eftir hæð hússins. Eftir þetta hefur boltinn runnið ansi hratt. Ég hef verið að kynna verkefnið og eins að sækja um styrki til að geta komið safninu áfram og eins til að geta haldið veglega opnunarhátíð á sumar daginn fyrsta.

Opnunarhátíðin veður haldin í Rauða Húsinu á Eyrarbakka á sumardaginn fyrsta klukkan 16. Gerður Kristý og Auður Jóns munu lesa úr verkum sínum, Helga Kress prófessor og heiðursgestur opnunarinnar mun flytja ávarp og eins Brynhildur Heiðar og Ómarsdóttir bókmenntafræðingur. Elín Finnbogadóttir mun fjalla um tengsl sín við verk Guðrúnar frá Lundi. 
Tónlistaratriði í flutningi Karenar Hafþórsdóttur og Jóhannesar Erlingssonar og síðan mun Katrín Jakobsdóttir ráðherra opna safnið  formlega. Hagsmunafélag verður einnig stofnað.   Gaman er að geta þess  að Kvenfélag Eyrarbakka verður 125 ára þennan dag.


Anna í Túni, Eyrarbakka

 

 

Anna Jónsdóttir í Túni á Eyrarbakka.

 

 

 

Túngata 40 á Eyrarbakka

 

 

 

Skráð af: Menningar-Staður