Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

22.04.2013 05:56

Horfi til baka með þakklæti

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Birgitta Spur.

Það er mjög sérstakt að vera gift manni sem lifir sig svo inn í vinnu sína og hugmyndir að hann leyfir engu öðru að komast að. Ég var og er mjög hrifin af list Sigurjóns.

 

• Birgitta Spur ræðir um Listasafn Sigurjóns Ólafssonar sem hún stofnaði árið 1984 en safnið er nú deild í Listasafni Íslands

 

Úr djúpunum

er sýning sem verður opnuð síðasta vetrardag, miðvikudaginn 24. apríl, í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi. Titill sýningarinnar vísar til þeirra furðuskepna sem Sigurjón tók að fást við um og eftir 1960, og í verkum hans má meðal annars finna tengingar við hugmyndir listamanna þeirra tíma um súrrealisma og hið sjálfsprottna listform. Sýningin er sú fyrsta eftir sameiningu Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og Listasafns Íslands sumarið 2012.

Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns, stofnaði Listasafni Sigurjóns Ólafssonar árið 1984 og var það rekið sem sjálfseignarstofnun til ársins 2012. Hún er spurð um ástæður þess að hún stofnaði safnið á sínum tíma. Hún segir: „Sigurjón lést árið 1982 og lét eftir sig mikið af verkum á vinnustofu sem var farin að láta svo mikið á sjá að verkin voru ekki óhult þar. Á þessum tíma var ég menntaskólakennari og það var ekki nokkur leið að ég gæti ráðist í stóra endurbyggingu á húsnæðinu. Mér var ráðlagt að stofna safn þannig að til yrði rammi utan um öll þessi verk. Árið 1984 var stofnað einkasafn og síðan var hafist handa við að afla fjármagns til endurbyggingar sem átti sér stað á árunum 1985-88. Þetta varð miklu stærra dæmi en mig hafði órað fyrir. Þetta tókst þó með aðstoð góðra manna því óhemjumargir sýndu málinu skilning og styrkir fengust frá ríki og borg. Heildarupphæðin við endurbyggingu var 40 milljónir á árunum 1985-1988 og með því að nýta framlög frá einstaklingum og fyrirtækjum og höfundargreiðslur fyrir afsteypum sem við seldum þá tókst okkur fjölskyldunni að fjármagna framkvæmdir að tveimur þriðju hluta. Safnið var opnað 21. október 1988 en þann dag hefði Sigurjón orðið áttræður og árið eftir var safnið gert að sjálfseignarstofnun með stjórn og 12 manna fulltrúaráð.

Mitt hlutverk hefur verið að halda utan um þessa stóru listaverkaeign og sjá um að safnið sé rekið samkvæmt lögum og reglum. Safnið er miðstöð rannsókna á list Sigurjóns. Við höfum haldið þemasýningar á verkum hans, haft tíðar gestasýningar með erlendum og innlendum listamönnum og gefið út fjölda rita og þar á meðal er heildarskrá yfir öll verk Sigurjóns sem er að því er ég best veit eina heildarskráin yfir verk íslensks listamanns sem hér hefur verið gefin út.“

 

Grundvöllur fyrir framtíðarstarf

Í fyrra gaf Listasafn Sigurjóns 181 verk eftir Sigurjón og allar eignir safnsins til Listasafns Íslands. Spurð um ástæðuna fyrir þeirri ákvörðun segir Birgitta: „Á þessum 25 árum frá því að safnið var opnað almenningi í bættum húsakynnum hefur margt gerst í íslensku samfélagi. Fólk sem upphaflega studdi við safnið er horfið, nýjar kynslóðir hafa áhuga á öðru og ég verð ekki yngri. Mig vantar orkuna til að ganga á milli manna og biðja um stuðning. Ég horfi til baka með miklu þakklæti til allra þeirra sem studdu mig og safnið, en það er ekkert launungarmál að óöryggið og áhyggjur um fjárhagsstöðu safnsins hafa tekið sinn toll. Ég er mjög glöð yfir því að samkomulag náðist um að safneignin rynni til Listasafns Íslands svo að framhald verði á 25 ára starfsemi í Sigurjónssafni.

Það er ekkert vafamál að Sigurjón vildi að listaverk sín færu á Listasafn Íslands. Selma Jónsdóttir, sem var lengi forstöðumaður safnsins, hafði strax frá upphafi auga fyrir verkum Sigurjóns og keypti meðal annars eftir hann stórar steinmyndir. Þannig að Listasafn Íslands átti þegar nokkur lykilverk eftir Sigurjón. Nú hafa fjölmörg bæst við og segja má að verk Sigurjóns séu komin þangað sem hann vildi að þau væru. Með þessari sameiningu myndast ákveðinn grundvöllur fyrir framtíðarstarfið og fleiri möguleikar á að rannsaka verk hans.“

 

Persónuleg og pólitísk verk

Hvað ætlar þú sjálf að gera núna?

„Það brennur á mér að skrá það sem ég veit um tilurð verka Sigurjóns og tengingar við samtímann. Mörg verka hans eru mjög persónuleg, jafnvel pólitísk.“

Hvernig var að búa með listamanni eins og Sigurjóni?

„Við Sigurjón vorum saman í meira en 25 ár, og ég var miklu yngri en hann, það voru 23 ár á milli okkar. Það er mjög sérstakt að vera gift manni sem lifir sig svo inn í vinnu sína og hugmyndir að hann leyfir engu öðru að komast að. Ég var og er mjög hrifin af list Sigurjóns. Sjálfur var hann mjög metnaðarfullur, vissi hvað hann vildi og var mjög fljótur að tileinka sér alla tækni og finna eigin form og stíl. Það er dýrt að gera höggmyndir, kostar líkamlega orku og tekur mikinn tíma. Sigurjón gat verið hálft ár eða lengur með eitt verk. Þrátt fyrir þetta lét hann eftir sig mikið safn listaverka. Hann var á vissan hátt harður húsbóndi þótt hann væri mikið ljúfmenni.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 22. apríl 2013

 

Sigurjón Ólafsson myndhöggvari.

Eyrbekkingurinn Sigurjón Ólafsson

Fæddur 21. október 1908

Dáinn 20. desember 1982

 


Sigurjón lést í Reykjavík 20. desember 1982 og var jarðsettur 31. desember í Eyrarbakkakirkjugarði.

Atómið, eitt af verkum hans á legsteininum.

Krían austan við Eyrarbakka. Eitt af listaverkum Eyrbekkingsins Sigurjóns Ólafssonar.

 

Skráð af: Menningar-Staður