Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

22.04.2013 13:26

Um 100 nemendur í dagskóla Skipstjórnarskólans

Sækja í full réttindi

 

Skipstjórnarskólinn er einn 10 faglega sjálfstæða undirskóla innan Tækniskólans sem er eins konar regnhlífasamtök þessara skóla. Tækniskólinn var stofnaður árið 2008 þegar Iðnskólinn í Reykjavík og Fjöltækniskólinn sameinuðust. Skólinn er stærsti  framhaldskóli  landsins og byggir á langri og merkri sögu sem tengist atvinnulífi landsins á marga vegu.

Skipstjórnarnámið skiptist í fimm réttindastig sem hvert um sig gefur i réttindi til starfa um borð í skipum af mismunandi stærð og gerð. Réttindastig A, B og C varða störf á fiskiskipum og öðrum skipum og miðast réttindi A og B við lengd. Réttindastig D veitir ótakmörkuð réttindi á öll skip, nema varðskip. Réttindastig E er fyrir skipherra á varðskipum. Öll réttindi nást að fullnægðum skilyrðum um siglingatíma og starfsþjálfun.

 

Eyrbekkingurinn Vilbergur Magni Óskarsson, skólastjóri Skipstjórnarskólans,

segir að aðsókn að skólanum hafi verið nokkuð góð undanfarin ár, árlega sæki milli 30 og 40 manns um nám við skólann og þegar opnað var fyrir umsóknir nýverið bárust strax um 20 umsóknir. Skólastjóri segir þess fullviss að skólinn verði fullsetinn á næsta vetri, eða um 100 nemendur og segir hann áhrif efnahagskreppunnar eiga þar einhvern þátt, þ.e. við minnkandi atvinnuframboð leiti menn fyrir sér um örugga atvinnu. Nokkur fjöldi nemendanna er árlega í dreifinámi, þ.e. fjarnámi, en þeir nemendur koma í skólann 2 – 3 daga í mánuði. Vilbergur Magni segir að dreifinám geti hentað vel þeim sem eiga ekki gott með að dvelja fjarri heimilinu langdvölum vegna fjölskylduaðstæðna.

 

,,Því miður eru afar fáar konur hér við nám, eru í dag aðeins 3 talsins, en mættu vera fleiri,” segir skólastjóri. ,,Samlegðaráhrif þess að reka þennan skóla sem hluta af Tækniskólanum eru umtalsverð. Farmannapróf hefur í dag ígildi stúdentsprófs og svo er auðveldara fyrir nemendur að fara milli skólanna innan Tækniskólans, sýnist þeim svo. Því miður hefur endurnýjun tæknibúnaðar ekki verið sem skildi, en það dregur ekki úr aðsókninni. Í vor útskrifast milli 20 og 30 skipstjórnarnemar og margir þeirra fara beint á sjó, flestir á fiskiskip. Vorið 2012 útskrifuðust 20 nemendur úr varðskipadeildinni. Það hefur engin könnun verið gerð á þörfinni fyrir skipstjórnarmenn, en í dag taka flestir einnig farmannaprófið auk fiskimannaprófsins sem er viðbótarnám upp á eina önn. Það gefur viðkomandimeiri réttindi erlendis en um allan heim vantar skipstjórnarmenn,” segir Vilbergur Magni Óskarsson skólastjóri.

 

Útvegsblaðið mánudagurinn 22. apríl 2013.

 

Eyrbekkingurinn Vilbergur Magni Óskarsson, skólastjóri Skipstjórnarskólans.

Hann var skipherra hjá Landhelgisgæslunni. Hér  er hann á brúarvæng Óðins við bryggju á Flateyri.

 

Skráð af: Menningar-Staður