Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

25.04.2013 06:00

Á sér langan aðdraganda

• Opnunarhátíð Konubókastofu haldin í Rauða húsinu á Eyrarbakka í dag kl. 16

• Safnið á nú þegar 800 titla, sá elsti er frá 1897

 

„Markmiðið með safninu er að halda til haga öllum þeim bókum sem íslenskrar konur hafa skrifað í gegnum tíðina,“ segir Rannveig Anna Jónsdóttir um Konubókastofuna sem opnuð verður formlega á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 25. apríl, kl. 16, með móttöku í Rauða húsinu á Eyrarbakka. Þar munu Gerður Kristý og Auður Jónsdóttir lesa úr verkum sínum, Brynhildur Heiðar og Ómarsdóttir bókmenntafræðingur flytja ávarp og Elín Finnbogadóttir fjalla um tengsl sín við verk Guðrúnar frá Lundi. Sérstakur heiðursgestur verður Helga Kress prófessor og mun hún ávarpa viðstadda, en Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra opnar safnið formlega.

Rannveig Anna, sem einnig er kölluð Anna í Túni, á hugmyndina að Konubókastofunni og hefur haldið utan um starfið til þessa. Aðspurð segir hún stofnun safnsins eiga sér býsna langan aðdraganda. „Ég ólst upp á heimili þar sem mikið var rætt um bækur og fór því í bókmenntafræði við Háskóla Íslands,“ segir Rannveig Anna og tekur fram að í náminu hafi Helga Kress haft mikil áhrif sig. „Hún beindi sjónarhorni mínum að skrifum kvenna og talaði mikið um það hversu mikið af verkum íslenskra kvenna hefði farið forgörðum og þær hlotið litla viðurkenningu bókmenntaheimsins. Nokkrum árum seinna rakst ég á safn á Suður-Englandi með bókum eftir breskar konur skrifaðar á árunum 1700-1830. Safnið var einungis hýst í einu herbergi, en upplifun mín var mjög sterk.“

 

Boltinn fór að rúlla fyrir ári

Þegar Rannveig Anna kom heim úr ferðinni segist hún markvisst hafa farið að safna bókum eftir íslenskar konur með það að markmiði að opna slíkt safn hérlendis. „Lengi vel reyndi ég að útvega bækurnar eins ódýrt og hægt var. Smám saman fóru vinir og ættingjar að gauka að mér bókum,“ segir Rannveig Anna og tekur fram að starfsmenn Bókasafnsins á Selfossi og á Eyrarbakka sem og Bjarni Harðarson bóksali hafi stutt vel við bakið á sér með bókagjöfum og hvatt sig áfram. Aðspurð segist hún nú þegar vera búin að safna um 800 titlum eftir íslenskar skáldkonur, en elsta ritið í safninu er frá árinu 1897.

„Í raun má segja að boltinn hafi farið að rúlla fyrir ári þegar sýnt var viðtal við mig í Landanum í Ríkissjónvarpinu. Í kjölfarið fóru bækur að streyma til mín hvaðanæva af landinu,“ segir Rannveig Anna sem leitaði í framhaldinu til sveitarfélagsins Árborgar um aðstöðu fyrir Konubókastofuna. „Ég var svo lánsöm að fá herbergi í Blátúni, að Túngötu 40 á Eyrarbakka, en svo skemmtilega vill til að bókasafn Árborgar á Eyrarbakka er í sama húsi,“ segir Rannveig Anna og tekur fram að sig dreymi um að Konubókastofa fái í framtíðinni heilt hús til umráða sambærilegt við Davíðshús á Akureyri og Þórbergssetur á Hala. „Skemmtilegast væri að vera í íbúðarhúsi þannig að heimsókn á safnið yrði líkt og heimsókn á heimili,“ segir Rannveig Anna. Þess má að lokum geta að í sumar verður opnuð heimasíða safnsins þar sem gestir geta fræðst um einstaka höfunda og verk þeirra.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Rannveig Anna Jónsdóttir hefur haft veg og vanda af stofnun Konubókastofu.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 25. apríl 2013.

 

Skráð af: Menningar-Staður