Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

27.04.2013 20:15

Fullt út úr dyrum á opnun Konubókastofunnar á Eyrarbakka

Fullt út úr dyrum á opnun Konubókastofunnar á Eyrarbakka

Anna Jónsdóttir stofnandi Konubókastofunnar.

Anna Jónsdóttir stofnandi Konubókastofunnar.Mynd/Linda Ásdísardóttir

Það var margt um manninn þegar Konubókastofan á Eyrarbakka opnaði á Sumardaginn fyrsta. Fullt var út úr dyrum og margir stigu á stokk og fluttu erindi á þessum merkisviðburði. Bókastofan er eingöngu ætluð kvenrithöfundum en það er meðal annars einn liður í því að gefa konum meira vægi í bókmenntasögunni.  Anna Jónsdóttir sem á heiðurinn af Konubókastofunni var að vonum hæstánægð með daginn og hversu vel tókst til.

Hún sagði meðal annars í viðtali í janúar, þegar hún fékk lyklana að húsnæði safnsins á Eyrarbakka, að markmið safnsins væri að halda til haga þeim verkum sem íslenskar konur hafa skrifað í gegnum tíðina.

Um leið og verkin fá utan um sig þetta safn væri sjónarhorninu beint að þeim og mikilvægi þeirra í íslenskri bókmenntasögu. Hér eru nú þegar ýmis söfn og setur tengd rithöfundum en það eru allt karlkynsrithöfundar, að Kvennasögusafninu undanskildu.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hélt erindi og sagðist hæstánægð að sjá svo marga gesti. Hún hefði frekar búist við að standa fyrir framan fáeina og halda ræðu, en ekki hundrað manns. Er það virkilegt gleðiefni að svo margir hafi lagt leið sína á Eyrarbakka til að fagna með Önnu.

Anna sagði meðal annars í ræðu sinni að sér þætti skipta afar miklu máli að geta sýnt dætrum sínum, og þeirra kynslóð, að draumar geti ræst.

Draumar okkar geta ræst ef við trúum nógu mikið á þá og vinnum hægt og rólega að því að gera drauminn að veruleika eins og minn draumur er núna í dag.

Katrín Jakobsdóttir var að vonum ánægð með hversu vel var mætt.

 

Helga Kress

 Gerður Kristný

 Auður Jónsdóttir

Við óskum Önnu Jónsdóttur innilega til hamingju með Konubókastofuna á Eyrarbakka. Hægt er að fá meiri upplýsingar um safnið á Facebook síðu Konubókastofunnar.

 

Af: http://www.pressan.is/Menningarpressan/LesaMenningarfrett/fullt-ut-ur-dyrum-a-opnun-konubokastofunnar-a-eyrarbakka

 

Hér skráð af: Menningar-Staður