Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

27.04.2013 07:38

Kosningahátíð í Laugabúð á Eyrarbakka

Það verður kosningahátíð í Laugabúð á kjördag 27. apríl frá kl. 12 á hádegi og fram eftir degi. Það er tilvalið að koma við í gömlu þorpsbúðinni á leið heim af kjörstað í samkomuhúsinu Stað og fá sér kók og prinspóló eða appelsín með lakkrísröri.


Þeir sem eru í vafa um hvað þeir eiga að kjósa geta aftur á móti komið við í Laugabúð á leið á kjörstað til þess að ræða málin við kaupmanninn. Hver veit nema að hann veiti ókeypis ráð eða gefi brjóstsykur til þess að létta lund og auðvelda valið!


Og svo var verið að taka upp nýjar vörur sem henta vel í kosningapartíið að kvöldi kjördags. Vorum að fá beint úr prentsmiðjunni í höfuðstaðnum þessar líka fínu Bakkaservíettur og ekki eru þær síðri glasamotturnar með ölgerðarmerkinu frá Bakköli.


Og fyrir þá sem hugsanlega telja að þeir hafi kosið rangt er til mikið úrval af alls konar sápum sem hreinsa menn af allri synd og gefa góða lykt á kroppinn.


Sjáumst hress og kát á kjördag.

 

 

 

 

Fyrsti viðskiptavinurinn eftir að Laugabúð var opnuð að nýju eftir gagngerar endurbætur.

 

 

Magnús Karel Hannesson kaupmaður í Laugabúð.

 

 

 

Kaupmannshjónin í Laugabúð; Inga Lára Baldvinsdóttir og Magnús Karel Hannesson í léttu spjalli við hjónin Kjartan Björnsson og Ingunni Helgadóttur á Selfossi. Myndirnar eru teknar á Jónsmessumátíðinni 2011.

 

 

 

Af: Facebook-síðu Laugabúðar. - https://www.facebook.com/Laugabud

 

Skráð af: Menningar-Staður