Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

31.05.2013 12:35

Fjölskyldu- og menningarhátíðin Fjör í Flóa verður haldin í Flóahreppi helgina 31. maí - 2. júní.

Margrét Sigurðardóttir

Fjölskyldu- og menningarhátíðin Fjör í Flóa verður haldin í Flóahreppi helgina 31. maí - 2. júní.

Hátíðin hefur undið upp á sig og stöðugt bætast við viðburðir sem gera hana veglega og eftirsóknarverða.
Í ár verður t.d. boðið upp á málverkasýningu á verkum Sesselju Ásgeirsdóttur og höggmyndasýningu Lúðvíks Karlssonar í Þingborg. Einnig verður sýning á myndum Alexanders Ó.B. Kristjánssonar í Tré og list, Forsæti. Þar verður jafnframt boðið upp á sýningu á verkum Bjargar Sörensen og ný listaverk eftir hagleiksfólkið og listamennina, Siggu á Grund og Ólaf Sigurjónsson. Sýning á málverkum eftir Eyjólf Eyfells verður í Félagslundi og þar verður einnig til sýnis leiktjald sem hann málaði og var notað í Félagslundi.

Menningarstyrkjum Flóahrepps verður úthlutað við hátíðalega athöfn á föstudaginn. Á sama tíma verður kjör um íþróttamann ársins opinberað.  Höskuldarganga, gönguferð að bæjarstæðinu í Saurbæ verður á föstudagkvöldi undir leiðsögn Jóns M. Ívarssonar.

Möguleikhúsið verður með sýningu á leikritinu Ástarsaga úr fjöllunum í Félagslundi á laugardaginn sem er fyrir börn á öllum aldri, barna- og fjölskylduguðþjónusta verður í Hraungerðiskirkju sama dag og Karíus og Baktus koma í heimsókn í Þjórsárver á sunnudaginn.

Kvöldvaka verður í Þjórsárveri  á laugardagskvöldi en þar mæta Kaffibrúsakarlarnir galvaskir að vanda. Þar verður einnig hagyrðingamót þar sem Sigurjón Jónsson, Magnús Halldórsson og  Kristján Ragnarsson munu leiða saman hesta sína undir dyggri stjórn Guðmundar Stefánssonar. Hljómsveitin Glundroði mun svo spila fyrir dansi inn í bjarta nóttina.
Starfsíþróttakeppni HSK verður í Flóaskóla á sunnudeginum þar sem keppt verður í pönnukökubakstri, stafsetningu og að leggja á borð.

Í Þingborg mun Anna Kristín Helgadóttir koma og kynna blað sitt Prjónafjör sem engin prjónakona/maður má missa af.
Opin hús verða út um alla sveit þar sem tekið verður á móti fólki að hætti Flóamanna af gestrisni og hlýhug. Þar má nefna sveitabúðina Sóley í Tungu, Ullarvinnsluna í Gömlu Þingborg, leikskólann Krakkaborg, skrifstofu Flóahrepps, Gistiheimilið Lambastaðir, Ferðamannafjárhúsið  Egilsstaðakoti, lausagönguhesthús í Ölvisholti og Íslenska bæinn í Austur-Meðalholtum. Á Lambastöðum verður sýning Svanhvítar Hermannsdóttur um Flóaáveituna til skoðunar. Sölubásar verða í Félagslundi laugardag og sunnudag.

Einnig verða opin  hús í Brandshúsum þar sem hægt er skoða hænur, dúfur og unga og bréfdúfur munu hefja sig til lofts. Í Vallarhjáleigu verður opið hús en þar er margt sem kemur á óvart og gaman er að skoða.

Morgunmaturinn er í Þingborg að þessu sinni undir traustri stjórn kvenfélags Villingaholtshrepps og þangað eru allir velkomnir á laugardagsmorgninum í notalega samverustund.

Kvenfélögin í Flóahreppi verða einnig með fleiri viðburði. Kvenfélag Hraungerðishrepps verður m.a. með tombólu í Þingborg, blóma- og grænmetissölu og sögusýningu í tilefni af 80 ára afmæli kvenfélags Hraungerðishrepps.  Kvenfélag Gaulverjabæjarhrepps verður með sinn árlega kökubasar í Félagslundi þar sem fólki gefst tækifæri á að kaupa sér góðgæti með kaffinu. Einnig verður kaffihúsastemning í Félagslundi á vegum kvenfélagsins. Kvenfélag Villingaholtshrepps verður með kaffihlaðborð á sunnudeginum í Þjórsárveri en þar munu borð svigna undan kræsingum.


Hér er ekki allt upp talið en frekari upplýsingar og nánari tímasetningar  eru á www.floahreppur.is og í öllum helstu fjölmiðlum.

Sjáumst  í Flóahreppi 31. maí - 2. júní.

Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri

 

 

Þingborg.

 

 

Félagslundur

 

 

Þjórsárver

 

Skráð af Menningar-Staður