Auður Sveinsdóttir Laxness frá Eyrarbakka.
Auður fæddist á Eyrarbakka 30. júlí 1918 og ólst þar upp til sjö ára aldurs. Foreldrar hennar voru Sveinn Guðmundsson járnsmiður og k.h., Halldóra Kristín Jónsdóttir.
Sveinn var sonur Guðmundar, b. á Nýjabæ Gíslasonar, og Margrétar, systur Hafliða, afa Ólafs K. Magnússonar ljósmyndara. Margrét var dóttir Jóns, b. á Álfsstöðum á Skeiðum, bróður Einars, afa Einars Magnússonar, rektors MR. Móðir Margrétar var Margrét Dóróthea, systir Guðmundar í Miðdal, langafa Vigdísar Finnbogadóttur og Errós.
Halldóra Kristín var systir Steinunnar Guðrúnar, móður Baldvins Halldórssonar leikara frá Arngerðareyri við Djúp, föður Páls bókmenntagagnrýnanda og Ingu Láru á Eyrarbakka, deildarstjóra Ljósmyndadeildar Þjóðminjasafns Íslands. Halldóra var dóttir Jóns, hreppstjóra á Skálmarnesmúla Þórðarsonar, b. á Þórisstöðum, bróður Þorsteins í Æðey, föður Péturs Thorsteinssonar útgerðarmanns. Móðir Jóns hreppstjóra var Guðrún, systir Jóns, föður Björns ráðherra og ritstjóra, föður Sveins forseta.
Auður lauk gagnfræðaprófi og prófum frá Handíða- og myndlistarskólanum 1946. Hún starfaði við röntgendeild Landspítalans í tólf ár, kenndi í Varmárskóla og starfaði við Þjóðminjasafnið í einn vetur.
Auður giftist á aðfangadag 1945, Halldóri Kiljan Laxness, rithöfundi og Nóbelsverðlaunahafa. Eftir það aðstoðaði hún eiginmann sinn heima og á ferðalögum, og stundaði húsmóðurstörf á hinu gestkvæma heimili þeirra að Gljúfrasteini. Hún var þar lengst af húsfreyja en flutti að Hlaðhömrum í Mosfellsbæ 2004.
Dætur Auðar og Halldórs eru Sigríður, kennari og húsfreyja, og Guðný, kvikmyndagerðarmaður.
Auður lést 29.október 2012
Morgunblaðið þriðjudagurinnn 30. júlí 2013 - Merkir Íslendingar
Skráð af Mennningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is