Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

31.07.2013 20:45

Vínsérfræðingarnir fá valkvíða á Rauða húsinu

Skúli Gíslason, yfirþjónn á Rauða-húsinu á Eyrarbakka og Sandra Ösp Stefánsdóttir þjónn þar.

 

Vínsérfræðingarnir fá valkvíða á Rauða húsinu

 

„Veðrið hefur alltaf einhver áhrif á aðsóknina. Um leið og góða veðrið kom í síðustu viku fylltist staðurinn hjá okkur. Annars hefur sumarið verið gott og nóg verið að gera“, sagði Skúli Gíslason, yfirþjónn á Rauða húsinu á Eyrarbakka. 

Hann sagði að hjá þeim væri lögð áhersla á afslappað andrúmsloft og fjölbreyttan matseðil. Margir höfuðborgarbúar nýttu sér það og mikið væri um að fólk gerði sér ferð  úr bænum og fengi sér að borða á Rauða húsinu. Annars væri álíka mikið af erlendum ferðamönnum og Íslendingum sem kæmu. Þegar talið barst að matseðlinum sagði Skúli að humarinn væri alltaf vinsæll, en veitingahúsin matreiða hann hvert með sínum hætti og virtist fólki líka það vel. Þá nefndi Skúli að þau væru með hrossalund sem væri pönnusteikt og grilluð í ofni og svo Mojitoskyr með ís og ferskum ávöxtum. Sagði hann að það væri eftirréttur sem fengist ekki annars staðar en hann væri búinn til eins og Mojito. Á matseðlinum er líka áhugaverður eftirréttur „Gamla góða Þjórsárhraunið“. Þar er um að ræða heita súkkulaðiköku með ís og ferskum ávöxtum. Af forréttum nefndi hann hreindýra carpaccio en það er þunnskorið hrátt hreindýrakjöt borið fram með klettasalati og parmesian.

Á Rauða húsinu er boðið upp á sérstakt þriggja rétta tilboð. Þar er hægt að velja um sjávarréttasúpu eða humarsúpu í forrétt, lambafillet eða fiskitvennu dagsins í aðalrétt og síðan er belgísk vaffla í eftirrétt. Tilboðið kostar 6.900 kr. á manninn. Skúli sagði síðan að vínlisti hússins væri sérstaklega flottur. „Vínsérfræðingarnir fá valkvíða þegar þeir sjá listann“, sagði Skúli að lokum.

Af: www.dfs.is

 

 

Skráð af Menningar-Staður