Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

01.08.2013 05:22

Steinunn Jóhannesdóttir: - Skálholt í sögu og samtíð

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Steinunn Jóhannesdóttir

 

Steinunn Jóhannesdóttir: - Skálholt í sögu og samtíð

 

Í sumar eru 50 ár liðin frá vígslu Skálholtsdómkirkju hinnar nýju og af því tilefni var haldin vegleg hátíð á þessum forna höfuðstað þjóðarinnar. Auk afmælis kirkjunnar var þess minnst að á vígsludaginn afhenti þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra þjóðkirkjunni Skálholtsstað til eignar og ríkið lagði staðnum til fjárstuðning til vaxtar og viðhalds. Frá árinu 1952 höfðu verið tekin ákveðin skref af hálfu löggjafans til endurreisnar Skálholts því „sæmd söguþjóðarinnar beinlínis krafðist þess að vegur þessa fornhelga staðar yrði efldur að nýju með einhverjum hætti“, segir í bók séra Sveins Víkings um Skálholtshátíðina 1956. Sú hátíð var haldin í níu alda minningu biskupsdóms á Íslandi og í hornstein nýju kirkjunnar var m.a. skráð: „Guðshús þetta er reist fyrir fé íslensku þjóðarinnar og samkvæmt ályktunum Alþingis.“

Enginn fulltrúi þess Alþingis sem nú situr sá ástæðu til að sækja hátíðarsamkomuna 21. júlí í ár né nokkur ráðherra nýrrar ríkisstjórnar sem þó hefur skrifað í stefnuskrá sína að hún hyggist efla og styðja íslenska þjóðmenningu.

 

Ábyrgð þings og þjóðar

Fjarvist núverandi valdhafa á Skálholtshátíð leysir hvorki þing né þjóð undan þeirri ábyrgð sem á henni hvílir gagnvart arfi kynslóðanna. Margt hefur verið vel gert á hinum endurreista Skálholtsstað. Kirkjan sjálf er undrafögur utan sem innan og laðar að sér gesti til staðarins hvaðanæva að, einkum að sumarlagi þegar hún nýtist sem eitt besta tónlistarhús landsins þar til þjóðin eignaðist Hörpu. Skólabyggingin er einnig fögur smíð, þótt ekki hafi tekist að halda lífi í hinni upphaflegu hugmynd um lýðháskóla að norrænni fyrirmynd. Hún hefur um árabil einkum þjónað sem gististaður fyrir aðstandendur og gesti Sumartónleikanna í Skálholti, guðfræðistúdenta, fornleifafræðinga, pílagríma, fermingarbörn og þátttakendur á málþingum og Kyrrðardögum. Aðrar byggingar á staðnum eru umdeilanlegri bæði hvað varðar útlit og staðsetningu og er skemmst að minnast mikilla deilna sem hafa orðið um „tilgátuhúsið“ sem byggt var á fornum veggjatóftum við hlið kirkjunnar. Húsið er þó að dómi undirritaðrar fallegt í sjálfu sér með sitt fagurgræna torfþak og gulbrúnu timburþil undir bláum sumarhimni. Það minnir á liðna tíð og húsakynni þeirra sem fyrr byggðu staðinn.

 

Helgir menn og syndarar

Það eru ekki aðeins helgir menn og dýrlingar sem hafa gengið um stéttir í Skálholti, heldur allar gerðir af fólki, þótt vissulega væri það stundum undir strangara siðferðislegu eftirliti en þorri manna. Þannig varð Skálholt vettvangur einnar lífseigustu og harmþrungnustu ástarsögu 17. aldar milli Ragnheiðar Brynjólfsdóttur og Daða Halldórssonar og dramatískra átaka föður og dóttur. Skálholt er eitt helsta sögusvið Íslandsklukkunnar, þar sem Halldór Laxness lætur handritasafnarann Arnas Arneus og Snæfríði Íslandssól eiga endurtekna ástarfundi. Í Skálholti var barist til úrslita þegar lútherskan tók við af katólskunni og Jón Arason og synir hans tveir voru teknir af lífi án dóms og laga, eins og hinn aldni leikari Gunnar Eyjólfsson minnti kirkjugesti á 21. júlí.

 

Æðstur staður og dýrligastur á Íslandi

Um Skálholt segir í fornu riti: „Þar er æðstur staður og dýrligastur á Íslandi.“ Slík fullyrðing leggur skyldur á herðar núlifandi Íslendingum að viðhalda reisn og virðingu staðarins sem biskupsseturs, en þar þarf einnig að efla fræðasetur og búa í haginn fyrir iðkendur bókmennta og lista, fornleifa og sögu. Í Skálholti bjó löngum fjölmenni á fyrri tíðar mælikvarða, fjöldi ferðalanga, innlendra sem erlendra, átti að auki leið þar um. Það voru erlendir ferðamenn sem máluðu fyrstu myndir sem til eru af staðnum, það voru erlendir vinir Skálholts sem gáfu nýju kirkjunni orgelið og klukkurnar, skírnarfont, þakviði og gólfflísar og kostuðu uppsetningu Kristsmyndarinnar yfir altarinu og steindu glugganna eftir listakonurnar Nínu Tryggvadóttur og Gerði Helgadóttur. Skálholt þarf stöðugt á nýjum hollvinum að halda, innan lands sem utan. Það mun því framvegis sem hingað til heyra undir hlutverk og skyldur Skálholtsstaðar að taka vel á móti gestum og gangandi.

 

Höfundur er rithöfundur og félagi í Skálholtsfélagi hinu nýja.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 1. ágúst 2013

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður