Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

02.08.2013 05:58

Fangar vilja umboðsmann

Litla-Hraun

 

Fangar vilja umboðsmann

• Viðurkenna brot en aðhafast ekkert • Kvartanir kæfðar í reglugerðum

 

„Íslenska fanga vantar óháðan utanaðkomandi aðila til að gefa föngum rödd gegn Fangelsismálastofnun,“ segir fangi sem titlar sig sem talsmann Stoða en það er hagsmunafélags fanga á Litla-Hrauni.

Hann gagnrýnir núverandi kerfi harðlega og telur að kvörtunarmál fanga séu kæfð í reglugerðum innan opinbera kerfisins.

Samkvæmt núverandi lögum verða fangar að tæma svokallaðar lögbundnar kæruleiðir áður en umboðsmaður Alþingis getur tekið mál þeirra til skoðunar. Fangi þarf fyrst að leita til Fangelsismálastofnunar, síðan til innanríkisráðuneytisins og þegar ráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð sinn getur umboðsmaður Alþingis skoðað málið.

„Núverandi kerfi er einfaldlega ekki nægilega gott. Kvartanir okkar eru kæfðar í stjórnsýslurugli í marga mánuði og flestir fangar eru komnir út úr fangelsinu áður en málið er loksins tekið fyrir,“ segir talsmaðurinn. Hann telur að ekkert muni breytast til batnaðar á meðan slíkar brotalamir eru til staðar.

 

Alltaf sömu stöðluðu svörin

Talsmaðurinn las upp svar sem honum barst frá umboðsmanni Alþingis varðandi kvörtun: „Umboðsmaður Alþingis telur rétt að brotin hafi verið stjórnsýslulög við ákvörðun þessa máls en þar sem of langt er um liðið frá umræddu atviki sér umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu.“

Hann segist þekkja mörg sambærileg dæmi þar sem fangar fá sömu stöðluðu svörin frá hinu opinbera eftir langa bið. „Það er fráleitt að yfirvöld viðurkenna brotið en aldrei gerist neitt því málið er búið að velkjast svo lengi um í kerfinu sem þeir bjóða sjálfir upp á.“

Hann telur miðstýringu Fangelsismálastofnunar vera of mikla og kallar eftir óháðum aðila sem getur staðið á sínu gagnvart stofnuninni „Þarna er á ferð eftirlitslaus bolti sem gerir það sem honum hentar. Það á enginn að hafa eftirlit með sjálfum sér eins og staðan er nú.“

Umræðuvettvangur

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur man ekki í fljótu bragði eftir umboðsmanni fanga hjá öðrum þjóðum en bendir á að þar eru stundum óháðar nefndir til staðar. Hann nefnir Noreg sérstaklega í þessu tilliti en þar hittast fulltrúi fanga, fræðimenn og fulltrúar úr kerfinu árlega og fara yfir málin. Ekkert slíkt umræðuferli er til staðar hér á landi.

Helgi skilur upplifun fanga og telur marga þeirra líta svo á að ráðuneytið sé ekki óháður aðili gagnvart Fangelsismálastofnun. Hann telur hins vegar stofnun nýs embættis umboðsmanns fanga vera of dýrt þar sem þörfin fyrir fjármagn er meiri annars staðar innan fangakerfisins.

Heimsótti Litla-Hraun

„Ég skil afstöðu fanga og tel mikilvægt að skoða málið heildstætt enda getur oft verið erfitt fyrir frelsissvipta einstaklinga að koma skoðunum sínum á framfæri,“ segir Róbert Spanó, settur umboðsmaður Alþingis.

Hann tók upp á því að eigin frumkvæði að heimsækja Litla-Hraun fyrir stuttu og spjalla þar við fanga augliti til auglitis. „Heimsóknin gekk vel og nú erum við að vinna upp úr þessum gögnum,“ segir Róbert.

Hann telur mikilvægt að stjórnvöld efli slíkar frumkvæðisathuganir hjá umboðsmanni Alþingis en stofnunin ræður ekki við slíkar athuganir vegna mikilla anna. Árlega berast yfir 500 kvörtunarmál til umboðsmanns Alþingis.

„Ef embætti okkar yrði eflt gætum við haft betra eftirlit með þeim opinberu stofnunum sem sjá um frelsissvipta einstaklinga. Með þessum hætti gæti umboðsmaður Alþingis skoðað mál fanga með almennum hætti.“

 
Motgunblaðið föstudagurinn 2. ágúst 2013
 
 
Skráð af Menningar-Staður