Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.08.2013 06:16

Sigldu frá Færeyjum á Þjóðhátíð í Eyjum

 

Sigldu frá Færeyjum á Þjóðhátíð í Eyjum

 

Hópur eldri manna sigldi á gamalli tréskútu frá Færeyjum til að upplifa Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Meðalaldurinn um borð er 65 ára og mennirnir eru komnir til að skemmta sér um helgina áður en þeir halda aftur til Færeyja á þriðjudaginn.

 

"Við byrjuðum að sigla frá Færeyjum á þriðjudaginn klukkan sex og lentum hérna í Vestmannaeyjum klukkan eitt þarsíðustu nótt," segir Guðmundur Kárason Jakobsen í samtali við Fréttablaðið.

 

Guðmundur er í hópi Færeyinga sem tók sig til og sigldi á gamalli skútu frá Færeyjum til að upplifa stemninguna á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

"Sjórinn var fínn en okkur vantaði vind alla leiðina. Það var of lítill vindur en það var ofsalega fallegt veður. Veðrið var eiginlega allt of gott til að sigla," segir Guðmundur.

 

"Við ætlum að skemmta okkur eins mikið og við getum með öllu fólkinu hérna. Þetta er í fyrsta sinn sem við gerum þetta," bætir hann við.

Hann segir alla vera búnir að haga sér vel í ferðinni en meðalaldur skipverja er 65 ár. Flestir þeirra hafa sótt sjó frá Vestmannaeyjum í gegnum tíðina.

 

"Klukkan fjögur í dag fáum við stóra og góða máltíð um borð og svo förum við í dalinn og ætlum að skemmta okkur með öllum hérna í Vestmannaeyjum. Það sem er ofsalega gaman fyrir mig er að ég er hálfur Vestmannaeyingur líka svo að ég hitti alla í fjölskyldunni núna," segir Guðmundur.

 

Skútan liggur í höfninni í Vestmannaeyjum þar sem hópurinn gistir. "Skútan liggur við höfn með færeyska fánann að aftan og þann íslenska að framan," segir hann. "Við förum aftur til Færeyja eftir hádegi á þriðjudaginn. Við sjáum til hvernig veðrið verður," segir Guðmundur Kárason Jakobsen.

 

Fréttablaðið laugardagurinn 3. ágúst 2013

 

Skráð af Menningar-Staður