Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

04.08.2013 06:24

Fetað í slóð Þórdísar ljósmóður á Eyrarbakka

Frá sýningunni Ljósan á Bakkanum.

Skautbúningur sem Þórdís Símonardóttir ljósmóðir saumaði fyrir Ólöfu systur sína í forgrunni. 

 

Fetað í slóð Þórdísar ljósmóður á Eyrarbakka

 

Söguganga um slóðir Þórdísar ljósmóður verður farin frá Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 10. ágúst kl. 15.00. Gangan er framlag Byggðasafns Árnesinga til Aldamótahátíðar á Eyrarbakka, sem stendur allan þann dag frá morgni til kvölds.

Það er Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur og höfundur bókarinnar Ljósmóðurinnar, sögulegrar skáldsögu um Þórdísi Símonardóttur, sem mun rölta með föruneyti um Bakkann og segja frá húsum og fólki sem tengdist lífi ljósmóðurinnar.

 

Þórdís ljósmóðir bjó á Eyrarbakka 1883-1933 og tók á móti hátt í tvö þúsund börnum. Hún lét sig meira varða ýmis samfélagsmál en konur gerðu almennt á þeim tíma og hlaut oft bágt fyrir.

Lagt er upp frá Húsinu kl. 15 og tekur gangan um klukkutíma. Fyrir eða eftir gönguna er svo upplagt að skoða sýninguna sem nú stendur yfir í borðstofu Hússins. Sýningin ber yfirskriftina Ljósan á Bakkanum og fjallar um líf og störf Þórdísar ljósmóður, aðstæður fæðandi kvenna og kjör ljósmæðra á þeim tíma sem Þórdís var ljósmóðir á Eyrarbakka. Höfundur sýningarinnar er Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari.

 

Allir eru velkomnir í gönguna og er ókeypis.  Boðið er upp á aldamótaafslátt í tilefni dagsins. 

 

Lýður Pálsson

safnstjóri

Byggðasafn Árnesinga

Húsinu, 820 Eyrarbakki

Símar 483 1082 og 891 7766

www.husid.com

 

Frá sýningunni um Ljósuna á Bakkanum

Lýður Pálsson veitir Kvenfélaginu á Eyrarbakka leiðsögn þann 19. júní s.l.

Sjá enn frekar hér: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/248862/

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður