Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

15.08.2013 07:13

Merkir Íslendingar - Ólafur Ketilsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Ólafur Ketilsson.

 

Merkir Íslendingar - Ólafur Ketilsson

 

Ólafur Ketilsson sérleyfishafi fæddist á Álfsstöðum á Skeiðum 15. ágúst 1903, og ólst þar upp.

Foreldrar hans voru Ketill Helgason, bóndi á Álfsstöðum, og k.h., Kristín Hafliðadóttir húsfreyja. Ketill var sonur Helga, b. í Skálholti og Drangshlíð undir Eyjafjöllum Ólafssonar, og Valgerðar Eyjólfsdóttir, frá Vælugerði í Flóa. Kristín var dóttir Hafliða Jónssonar b. á Birnustöðum, frá Auðsholti í Biskupstungum, og Sigríður Brynjólfsdóttir frá Bolholti á Rangárvöllum.

Systkini Ólafs urðu níu en átta þeirra komust á legg. Meðal þeirra voru Brynjólfur, lengi starfsmaður hjá Reykjavíkurborg; Valgerður, húsfreyja á Álfsstöðum; Helgi, bóndi á Álfsstöðum: Sigurbjörn, skólastjóri í Ytri-Njarðvík; Kristín Ágústa, húsfreyja í Forsæti; Hafliði, bóndi. á Álfsstöðum, og Guðmundur, mjólkurfræðingur hjá Mjólkurbúi Flóamanna.

Kona Ólafs var Svanborg Þórdís Ásmundsdóttir, húsfreyja, frá Neðra-Apavatni í Grímsnesi, og eignuðust þau þrjár dætur og einn kjörson.

Ólafur var á togurum nokkrar vetrarvertíðir og eftirsóttur háseti enda þrekmaður, rammur að afli. Hann tók bílpróf 1928, festi kaup á vörubifreið sama vor og ók um skeið fyrir kaupfélagið á Minni-Borg í Grímsnesi.

Ólafur fékk sérleyfi fyrir fólksflutninga til Laugarvatns, Gullfoss og Geysis 1932 og hélt uppi áætlunarferðum milli Reykjavikur og Laugarvatns í marga áratugi. Hann varð með tímanum góðkunn þjóðsagnapersóna fyrir hnyttin tilsvör og sérlega gætilegan akstur. Þá átti hann stundum í útstöðum við embættismenn kerfisins sem honum fannst svifaseint og stirt.

Ólafur var lengst af búsettur í Svanahlíð á Laugarvatni en síðustu árin bjó hann í íbúð sinni í Sunnuhlíð í Kópavogi.

Árið 1988 komu út æviminningar Ólafs, Á miðjum vegi í mannsaldur.

Ólafur lést 9. júlí 1999.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 15. ágúst 2013 - Merkir Íslendingar

 

Skráð af Menningar-Staður