Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

19.08.2013 21:57

26. ágúst 2003 - Hljómsveitin Nilfisk tók eitt lag á tónleikum Foo Fighters

David Grohl kunni greinilega vel við sig í æfingahúsnæði Nilfisk á Stokkseyri.David Grohl kunni greinilega vel við sig í æfingahúsnæði Nilfisk á Stokkseyri.

Nilfisk og Foo Fighters á æfingu.

 

26. ágúst 2003 - Hljómsveitin Nilfisk tók eitt lag

á tónleikum Foo Fighters

 

Áhorfendur á tónleikum Foo Fighters í Laugardalshöllinni vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið þegar forsprakki sveitarinnar, Dave Grohl, hóf tónleikana á því að lýsa heimsókn sinni á Stokkseyri. Við svo búið kynnti hann á svið hljómsveitina Nilfisk, sem Foo Fighters hafði heimsótt á æfingu á mánudagskvöldið. Nilfisk spilaði eitt lag við góðar undirtektir áhorfenda en áður höfðu hljómsveitirnar Vínyll og My Morning Jacket hitað upp.

Jóhann Vignir Vilbergsson, 16 ára söngvari og gítarleikari Nilfisk, segir þetta hafa verið einstaka upplifun. "Þetta var bara besta stund í lífi mínu hingað til. Ég var samt með bullandi kvef en það reddaðist," segir Jóhann en lagið sem þeir tóku heitir "Checking around". Hann segir að strákarnir í hljómsveitinni hafi "verið í sæluvímu" eftir þetta en fjórmenningarnir eru allir 15 eða 16 ára frá Stokkseyri og Eyrarbakka.

"Mér fannst áhorfendur bara taka vel á móti okkur," segir Jóhann aðspurður, sem var mættur aftur í skólann, Fjölbrautaskólann á Suðurlandi á Selfossi, "eins og ekkert hafi í skorist". Hann segir að Nilfisk stefni á að vera dugleg við æfingar á næstunni og nýta meðbyrinn og hvatninguna.

 

Kynnti Foo Fighters á svið

"Við mættum svona fyrir fjögur og fengum passana. Svo tókum við eitt lítið "sándtékk" á eftir þeim," segir Jóhann um aðdragandann í Laugardalshöll.

Jóhann fekk líka þann heiður að kynna Foo Fighters á svið en Nilfisk-liðar fylgdust síðan grannt með tónleikunum. "Þetta var frábært. Ég hef aldrei farið á eins góða tónleika," segir hann og ætlar að fylgjast vel með Foo Fighters í framtíðinni. "Við vonum að þeir komi aftur."

Það er ekki ólíklegt miðað við yfirlýsingar Grohl um kvöldið um "besta dag lífs síns". Hann talaði fjálglega um upplifun hljómsveitarinnar af landinu og þakkaði góðar viðtökur. Hann sagði Ísland vera uppáhaldsland sitt eftir heimsóknina og er þar með kominn á toppinn á óskráðum lista yfir Íslandsvini.

Smella á þessa slóð:  http://www.youtube.com/watch?v=lOyrxMCwQRQ

Morgunblaðið 28. ágúst 2003

NilFisk með Dave Grohl hjá veitingastaðnum Fjöruborðið á Stokkseyri þann 4. júlí 2005. Þá lékuk NilFIsk og Foo Fighters saman á tónlékum á Draugabarnum. Ljósm.: Guðmundur Karl Sigurdórsson.

 

 

Skráð af Menninga-Staður