Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

19.08.2013 05:59

Bakkabátar á bók

Vigfús Markússon. 

Vigfús við málverk sem sýnir hann og bræður hans og bátinn Bakkavík ÁR sem fórst í innsiglingunni á Eyrarbakka árið 1983. Vigfús bjargaðist naumlega.

 

Bakkabátar á bók

 

Vigfús Markússon skráði sögu báta frá Eyrarbakka 

Tók saman bókina á frívaktinni á sjónum 

Er örlagasaga öðrum þræði

 

»Sögu hvers byggðarlags má segja með ýmsu móti. Lengi vel snerist flest á Eyrarbakka um útgerð og fiskvinnslu og því er þetta öðrum þræði saga byggðarinnar,« segir Vigfús Markússon skipstjóri. Hann gaf á dögunum út bókina  Saga bátanna - Vélbátar smíðaðir eða gerðir út frá Eyrarbakka.

 

Þrátt fyrir erfið hafnarskilyrði var lengi umsvifamikil útgerð á Bakkanum. Nokkrir fyrstu Bakkabátanna voru smíðaðir í Danmörku, en vélbátaútgerð þar hófst af alvöru um 1920. Bátarnir voru gjarnan 10 til 15 tonn, en stærri síðar. Voru allmargir bátar smíðaðir á Eyrarbakka á tímabili, svo sem á árunum milli stríða þegar byggðarlagið blómstraði. Þá - og raunar lengur var - þar verslun, útgerð, iðnaður, þjónustustafsemi og menning. Með öðum orðum, flest sem gildir þéttbýlisstaðir þess tíma höfðu. En þetta kostaði sitt og það var aflinn sem skóp aurana.

 

Mitt hálfa líf í fjörutíu ár

 

»Sjómennskan hefur verið mitt hálfa líf. Ég munstraðist fyrst á bát fjórtán ára. Hef verið viðloðandi þetta síðan, eða í meira en fjörutíu ár,« segir Vigfús sem er fæddur og uppalinn á Eyrarbakka. Grunnurinn í bókinni góðu eru punktar frá Vigfúsi heitnum Jónssyni á Eyrarbakka. Hann var í áratugi forystumaður byggðarlagsins. Hafði þar flesta þræði í hendi sér. Skapaði söguna og skráði.

 

»Við Elínbjörg Ingólfsdóttir eigin kona mín vorum síðustu árin bakhjarlar Vigfúsar sem lést 1989. Hjálpuðum honum meðal annars með bátasöguna, efni af handskrifuðum blöðum var sett í tölvutækt form,« segir Vigfús Markússon, sem fyrir um fjórum árum fór að glugga í þetta efni að nýju.

 

»Grunnurinn var til staðar, en með því að fara í gamlar skrár, sjómannaalmanakið, leita á vefnum og tala við fólk sem þekkir til var hægt að fylla inn í eyðurnar. Alls eru bátarnir í bókinni um 100,« segir Vigfús, sem er yfirstýrimaður á Grindavíkurbátnum Tómasi Þorvaldssyni GK. Hann notaði gjarnan frívaktina á sjónum til skrifta og heimildaöflunar og útkoman er bókin góða.

 

Á sjónum er Vigfús svo jafnan með myndavélina í brúnni. »Mér finnst alltaf gaman að taka myndir af skipum. Bestar finnast mér myndirnar verða þegar er svolítil bræla; vagg og velta.«

 

»Fórst þar með öllum mönnum«

 

Saga bátanna er öðrum þræði örlagasaga, þótt framsetningin sé í einskonar skýrsluformi. Þannig segir m.a. frá bátnum Sæfara ÁR 69 sem fórst í innsiglingunni á Eyrarbakka í apríl 1927. »Inni á miðju sundi við svokallaðan Mannskaðanadd, sem er blindsker á skipaleiðinni, fékk báturinn á sig mikinn sjó og fórst þar með öllum mönnum,« segir í bókinni um slysið þar sem átta manns fórust.

 

Annað sjóslys á sömu slóðum varð árið 1983 þegar báturinn Bakkavík ÁR fórst og með honum tveir menn, Þórður og Sigfús Markússynir. Vigfús bróðir þeirra, sem hér er viðmælandi, bjargaðist.

 

»Þegar best lét voru umsvifin í útgerðinni á Eyrarbakka mikil, mest líklega milli 1970 og 1975 og svo á meðan á gosinu í Eyjum stóð og bátar þaðan voru gerðir héðan út. Það ár voru Bakkabátarnir alls ellefu og afli ársins nærri 4.800 tonn. Þegar kom fram yfir 1980 fór útgerðin að láta undan . Má segja að botninn hafi endanlega úr þessu farið þegar Óseyrarbrúin var tekin í notkun árið 1988. Með því var örstutt í góða hafnaraðstöðu í Þorlákshöfn. Aðrar ástæður voru þess svo valdandi að fáum árum síðar lögðu fiskvinnslufyrirtækin á staðnum upp laupana.«

 

Morgunblaðið sunnudagurinn 18. ágúst 2013

 

Vigfús og Elinborg héldu veglegt útgáfuteiti á Jónsmessuhátíðinni 22. júní 2013

Tvö myndasöfn frá útgáfuteitinu hafa verið sett inn á Menningar-Stað:

 

Fyrra safnið er á þessari slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/248971/

Seinna safnið er á þessari slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/248972/

 

 

Hér eru nokkara myndir:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skráð af menningar-Staður