Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

20.08.2013 06:58

Hólmsheiði hagkvæmasti kosturinn

Jarðvegsframkvæmdum á Hólmsheiði er lokið. Alþingi hefur varið um 700 milljónum til framkvæmda að nýju fangelsi. Innanríkisráðherra segir að niðurstaðan sé sú að hagkvæmast sé að byggja á Hólmsheiði.

Hanna Birna Kristjánsdóttir

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.

Alþingismaður Reykvíkinga og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík

 

Hólmsheiði hagkvæmasti kosturinn

• Innanríkisráðherra segir að nýtt fangelsi á Hólmsheiði sé hagkvæmasti kosturinn í fangelsismálum

• Málið var skoðað ítarlega í sumar

• Hægt hefur verið á framkvæmdum sem hefjast árið 2014

 

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, segir að í sumar hafi verið farið yfir alla kosti í fangelsismálum. Niðurstaðan hafi verið sú að hagkvæmast sé að halda áfram með framkvæmdir að nýju fangelsi á Hólmsheiði. ,,Eftir yfirlegu sumarsins komumst við að þeirri niðurstöðu að það sé farsælla að halda verkinu áfram en að velja aðra kosti. En að hægt verði talsvert á því og lagt verði til þess um helmingi minna fjármagn á næsta ári en fyrirhugað var. Með þessu næst fram mikil hagræðing,“ segir Hanna Birna. Bendir hún á að þegar hafi verið varið rúmum hálfum milljarði króna í jarðvegs- og hönnunarvinnu við fangelsið en jarðvegsframkvæmdum lauk nýverið.

 

Fóru yfir alla kosti

Skiptar skoðanir hafa verið um fyrirhugað fangelsi á Hólmsheiði sem áætlað er að kosti um tvo milljarða króna. Hanna Birna bendir á að þingið eigi alltaf síðasta orðið. Framkvæmdum verði haldið áfram í samræmi við samþykkt þess efnis á síðasta þingi. Sé vilji til þess að hætta við bygginguna þurfi til þess samþykki núverandi þings.

Um liðna helgi hófst útboð þar sem innanríkisráðuneytið óskaði eftir tilboðum í sjálfa bygginguna.

„Við drógum útboðið fram til þessa tíma til þess að vera alveg viss um að hafa farið yfir alla kosti í stöðunni,“ segir Hanna Birna. Hún segir að útboðsferlið taki sex mánuði áður en gengið verður að samningum um framkvæmdirnar. „Það munu engar framkvæmdir hefjast fyrr en í fyrsta lagi í upphafi nýs árs,“ segir Hanna Birna.

Sitt sýnist hverjum um fyrirhugaðar framkvæmdir. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags og viðskiptanefndar, hefur lýst yfir efasemdum um að rétt sé að hefja byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði og meðal annars velt því upp hvort nýta megi betur þau húsakynni sem þegar eru til staðar og að þeim verði breytt í fangelsi. „Það hafa verið skrifaðar margar skýrslur um aðra kosti. Enginn þeirra er talinn vera jafn hagkvæmur og þessi,“ segir Hanna Birna. „Það ræðst líka af því að þegar hafa farið rúmar 500 milljónir króna í verkefnið sem þýðir að ef þú ætlar að finna hagkvæmari kost þá þarft þú að geta varið þann kostnað sem þegar er búið leggja í,“ segir Hanna Birna.

 

Allt er undir

Á sama tíma eru málefni fangelsisins til umræðu hjá hagræðingarhópi skipuðum þeim Ásmundi Einari Daðasyni og Vigdísi Hauksdóttur úr Framsóknarflokki og Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Unni Brá Konráðsdóttur úr Sjálfstæðisflokki.

Aðspurð hvort enn sé sá valmöguleiki fyrir hendi að hópurinn leggi til að framkvæmdir verði slegnar út af borðinu vill Unnur Brá Konráðsdóttir ekki tjá sig um málið en segir þó að „allt sé undir“.

Fangelsi á Hólmsheiði

» Innanríkisráðherra segir að hagkvæmasti kosturinn í fangelsismálum sé að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiði.
» Farið var ítarlega yfir alla kosti í sumar.
» Framkvæmdir að fangelsisbyggingunni hefjast ekki fyrr en á næsta ári.
» Útboðsferli tekur sex mánuði.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 20. ágúst 2013

 

Unnur Brá Konráðsdóttir, alþingismaður Sunnlendinga (Suðurkjördæmi), á fundi í Hvíta-Húsinu á Selfossi 23. apríl s.l.

 

 

Skráð af Menningar-Staður