Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

24.08.2013 06:31

Merkir Íslendingar - Árni Jónsson frá Múla

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Árni Jónsson.

 

Merkir Íslendingar - Árni Jónsson frá Múla

 

Árni Jónsson, alþingismaður frá Múla, fæddist á Reykjum í Reykjahverfi 24. ágúst 1891. Hann var af Reykjahlíðarætt og Skútustaðaætt, sonur Jóns Jónssonar, alþm. í Múla, og Valgerðar, dóttur Jóns Jónssonar, þjóðf.m. á Lundarbrekku.

Eiginkona Árna var Ragnheiður Jónasdóttir og eignuðust þau þrjár dætur og synina Jón Múla, tónskáld og útvarpsmann, og Jónas, alþm. og rithöfund. Eiginkona Jóns Múla var Ragnheiður Ásta Pétursdóttir sem á rætur á Eyrarbakka.

Árni lauk stúdentsprófi frá MR 1911, var við verslunarstörf í Hull á Englandi 1912-15 og náði þar góðum tökum á enskri tungu. Hann var verslunarmaður á Seyðisfirði 1916, verslunarstjóri á Vopnafirði 1917-24, forstjóri Brunabótafélags Íslands 1924-28, ritstjóri í Reykjavík 1928-30, ritstýrði og gaf síðan út Austfirðing á Seyðisfirði en gerðist starfsmaður Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda í Reykjavík 1933.

Árni var ritstjóri Varðar, stjórnmálaritstjóri Vísis til 1942, ritstjóri Þjóðólfs og síðan Íslands 1942-44. Hann stundaði síðan ritstörf í Reykjavík til æviloka. Þá sat hann í bæjarstjórn Reykjavíkur 1942-44 og var um tíma í útvarpsráði.

Árni var alþm. Borgaraflokksins eldri og Íhaldsflokksins 1923-27 og Sjálfstæðisflokksins 1937-42. Þá skildu leiðir með honum og sjálfstæðismönnum, einkum vegna herverndarsamningsins við Bandaríkin, sumarið 1941.

Þegar Þjóðviljaritstjórarnir Einar Olgeirsson, Sigfús Sigurhjartarson og Sigurður Guðmundsson sátu í haldi í Bretlandi var Árna og fleiri blaðamönnum boðið til Bretlands. Þar heimsótti Árni þá Þjóðviljamenn í fangelsið og talaði skörulega þeirra máli. Í sömu ferð hélt hann glimrandi ræðu í BBC sem mæltist vel fyrir, en bresku gestgjafarnir kölluðu hann „Personality number one“.

Árna var gleðimaður og hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi. Hann var heimsborgari, fyrirmannlegur á velli, ágætur söngmaður, flugmælskur, beittur penni og drengur góður.

Árni lést 2. apríl 1947.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 24. ágúst 2013

 

 

Skráð af Menningar-Staður