Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

28.08.2013 22:50

Ég vil eiga við ykkur samstarf

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.

 

Ég vil eiga við ykkur samstarf

 

Ég vil þakka allar góðar kveðjur og óskir um velgengni í starfi frá fjölmörgum Sunnlendingum sl. vikur og mánuði. Það eru viðbrigði að vera orðinn þingmaður í stóru kjördæmi þar sem flóra atvinnu- og mannlífs er blómstrandi og stór. Ég legg mig fram um að ná nýjum tengingum í kjördæminu og virkja gömul og góð tengsl. Það er mér mikilvægt til að geta sinnt sem best þeim skyldum sem á mér hvíla fyrir kjördæmið að fólkið, forystumenn í atvinnulífi og sveitarstjórnum hafi við mig samband og haldi mér upplýstum.

Ég er að átta mig á hvernig ég held bestu sambandi við fólkið í kjördæminu og hef ákveðið að vera með fastan viðverutíma á Selfossi annan föstudag í hverjum mánuði. Til að byrja með verð ég á Hótel Selfoss meðan ég átta mig á þörfinni og verð mættur í morgunkaffi föstudaginn 13. september kl. 08.00.

Einstaklingar, sveitarstjórnarmenn og atvinnurekendur geta pantað viðtalstíma eða óskað eftir því að ég líti við hjá þeim innanbæjar eða í sveitunum. Ég er hreyfanlegur og hef gaman af því að ferðast og hitta fólkið hvar sem það býr og mun nýta tímann líka til heimsókna. Ég mun auglýsa viðveruna en hvet ykkur til að hafið samband þegar fólki hentar.

Það var ánægjuleg reynsla að setjast á þing og taka þátt í störfum þess. Glíman við ræðupúltið tók ekki verulega á mig en jómfrúarræða þingmanna er meira mál en ég ætlaði. Samþingmenn fagna þeim sem flytur sína fyrstu ræðu með hamingjuóskum og þeirri ræðu er aldrei svarað. Nokkrar ferðir í púltið tókust vel og best að fara rólega af stað og ræða mál sem maður gjörþekkir.

Ræðutíminn „Störf þingsins“ er tvisvar í viku og þá geta þingmenn rætt hvað sem þeim liggur á hjarta. Ég talaði tvisvar undir þessum lið, um 40 ára goslokaafmælið í Eyjum og um orku- og atvinnumál og svarta atvinnustarfsemi. Merkilegt hvað margir þingmenn ræddu um svarta atvinnustarfsemi sem segir sína sögu. Við þekkjum öll hvernig slík starfsemi grefur undan trúverðugleika atvinnulífsins og greinanna og mikilvægt að að uppræta slíka starfsemi sem hefur aukist í samfélaginu vegna hárra skatta. Þá ræddi ég og spurði iðnaðarráðherra um kostnað á orku og orkuflutningum fyrir orkusækin lítil og meðalstór fyrirtæki eins og ylræktina. Það er verkefni að koma til móts við þá mikilvægu atvinnustarfsemi með því að nýta ódýra endurnýjanlega orku til að efla þær greinar. Um það hafa verið sögð mörg orð en nú er komið að efndum, ég mun leggja mitt lóð á þá vogarskál.

Framundan eru mikilvægir tímar fyrir okkur öll. Atvinnulífið verður að koma fjárfestingum af stað í takt við lækkaða skatta og velviljað ríkisvald sem vill hleypa lífi í vinnumarkaðinn. Rísa undir loforðum um bætta stöðu heimila og lækka skuldir sem er eitt helsta kosningaloforðið. Forsætisráðherra lagði fram frumvarp á sumarþinginu í 10 liðum og verkefnið er komið af stað. Við bíðum öll og sjáum til hvað kemur út úr þeirri vinnu. Ég segi að mikilvægast er að staðið verði við dagsetningar í þeirri vinnu en henni á að ljúka í haust og byrjun nýs árs. Þá eiga mikilvæg skilaboð um stöðu heimilanna og lækkun kostnaðar fylgi fjárlagafrumvarpinu eins og afturkallanir skerðinga á  kjörum aldraða og öryrkja sem eiga að ganga til baka á kjörtímabilinu. Ég tel mjög mikilvægt að í upphafi nýs veiðiárs verði kvótinn aukinn og það verulega. Ég hef ekki farið dult með þá skoðun í þingflokknum, í Atvinnuveganefndinni og í samtölum við stjórnarsinna í þinginu.

Það hefur gefið mér fleiri tækifæri sem þingmaður að taka meiri þátt í lífi fólksins í sveitunum og bæjunum. Fjölmargar bæjarhátíðir eru vel sóttar og til fyrirmyndar hve vel er staðið að öllum hlutum. Þrátt fyrir góðan vilja og yfirferð næst ekki að mæta á öllum stöðum en stefnan er að hafa sótt allar hátíðir í kjördæminu á kjörtímabilinu.

Ég vil eiga við ykkur samstarf og reyni eftir megni að ferðast um kjördæmið en það virkar ekki bara aðra leiðina. Það er auðvelt að ná í mig og ég er alltaf tilbúinn að hlusta og sjá hvort við getum ekki leyst hnúta saman. Orð eru til alls fyrst og ég hlakka til samstarfsins með ykkur.

Með vinsemd
Ásmundur Friðriksson
asmundurf@althingi.is
sími 563 0500 - 894 3900

 

Ásmundur Friðriksson kemur oft við á Eyrarbakka

og hér eru nokkur dæmi þess færð til myndar:

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður