Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

31.08.2013 06:29

Merkir Íslendingar - Jón Eiríksson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Jón Eiríksson.

 

Merkir Íslendingar - Jón Eiríksson

 

Jón Eiríksson konferenzráð náði lengst Íslendinga í metorðum innan danska ríkisins á 18du öld og var þá sá, ásamt Árna Magnússyni og Skúla fógeta, sem mestu þokaði í framfaraátt hér á landi.

Jón fæddist 31. ágúst 1728, sonur Eiríks Jónssonar, bónda í Skálafelli í Suðursveit og síðar í Hólmi á Mýrum í Hornafirði, og k.h., Steinunnar Jónsdóttur, frá Hofi í Öræfum.

Eiginkona Jóns var Christine María Lundgaard en börn þeirra sem upp komust voru Jens, sekreteri í rentukammerinu; Eiríkur, einnig sekreteri í rentukammerinu; Anna Margrét, gift Tycho Jessen sjóliðsforingja; Ludvig amtmaður; Steinunn, gift Posth kommandör; Hans, læknir í Kaupmannahöfn, og Bolli William, tollstjóri í Marstal.

Jón lærði fyrst hjá Vigfúsi Jónssyni, presti í Stöð, móðurbróður sínum. Hann var tvo vetur í Skálholtsskóla þar sem hann kynntist velgjörðarmanni sínum, Ludvig Harboe biskupi.

Jón tók stúdentsprófi í Niðarósi 1748, stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla, varð baccalaureus 1750 og lauk lögfræðiprófi með fyrstu einkunn 1773.

Jón varð prófessor í lögfræði við Sóreyjar skóla 1773, var skipaður skrifstofustjóri í norsku stjórnardeildinni 1771, forstjóri í toll- og verslunarstjórninni 1773 og síðan í rentukammerinu 1777. Hann varð assessor í hæstarétti Danmerkur 1779, og var yfirbókavörður í konungsbókhlöðunni 1772-81. Hann var félagi í norska og danska vísindafélaginu, varð etatsráð 1775 og konferenzráð 1781.

Jón hafði umtalsverð stjórnbótaáhrif á málefni Íslands, einkum verslunarmálin en hann skrifaði fræga ritgerð um þau 1783 og sat í fjárhags- og verslunarnefnd Íslands.

Jón var heilsuveill síðustu árin, fleygði sér fram af brú í Kaupmannahöfn 29. mars 1787 og lést af höfuðáverka sem hann hlaut í fallinu.

Sveinn Pálsson náttúrufræðingur skrifaði ritgerð um ævi Jóns sem birtist í bókaflokknum Merkir Íslendingar.

 

Kaupmannahafnarháskóli.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 31. ágúst 2013  -  Merkir Íslendingar.

 

Skráð af Menningar-Staður