Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

02.09.2013 21:12

Stefnir eindregið að ánægjulegu afmæli

Ólafur Helgi Kjartansson í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka þann 25. ágúst s.l. á tónleikum Kiriyama Family.

Hann er hér að segja frá deilum Nilfisk ryksuguframleiðenda við Hljómsveitina NIlFisk frá Stokkseyri og Eyrarbakka á sínum tíma. Ólafur Helgi leiddi þau mál fyrir hljómsveitini og hafði fullan sigur.

 

Stefnir eindregið að ánægjulegu afmæli

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður er sextugur og byrjar daginn í sundlauginni á Selfossi klukkan hálf sjö. Síðan tekur við góð morgunstund með vinnufélögunum.

 

"Ég get víst ekki neitað því að þetta er að gerast en það er betra en hinn kosturinn," segir Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður um hækkandi aldur sinn en kappinn er sextugur í dag. Hann kveðst hafa hitt nánustu ættingja og vini á laugardaginn í tilefni þessara tímamóta og í dag ætlar hann að eiga góða morgunstund með vinnufélögunum á sýsluskrifstofunni á Selfossi. "Reyndar vill svo til að ég ætla að gifta líka í dag," upplýsir hann og efast ekki um að sú stund verði hátíðleg. "Daginn byrja ég samt í sundlauginni að venju, klukkan hálf sjö, um leið og hún er opnuð. Ég er oftast fyrsti gestur þar á morgnana," bætir hann við.

 

Ólafur Helgi er á ferðinni í bíl í rysjóttu veðri á meðan þetta spjall fer fram, vonandi með handfrjálsan búnað, og sambandið er svolítið slitrótt. Samt er hann krafinn um einhvern fróðleik um eigin ævi til þessa. "Ég byrjaði á því, eins og aðrir, að fara í barnaskóla og endaði námsferilinn á því að verða lögfræðingur fyrir, hvað? 35 árum. Síðan hef ég unnið hjá íslenska ríkinu," upplýsir hann.

 

En hvaðan er maðurinn? "Ég er fæddur í Reykjavík og alinn upp í Árnessýslunni en er hreinræktaður Vestfirðingur."

Það rifjast einmitt upp fyrir blaðamanni að Ólafur Helgi tók þátt í spurningakeppni átthagafélaganna síðasta vetur fyrir Sléttuhrepp, við norðanvert Ísafjarðardjúp. Hann kannast við það. "Það vill svo sérkennilega til að ég hef, frá því ég lauk námi, bara unnið í þeim tveimur héruðum sem tengjast uppruna mínum mest. Hér á Selfossi byrjaði ég sem fulltrúi sýslumanns, fór svo vestur á Ísafjörð 1984 til að gerast þar skattstjóri. Það dugði í rúm sjö ár, þá varð ég sýslumaður á sama stað. Var það rúm tíu ár og kom svo hingað í sama embætti og hef verið hér í tólf ár. Þetta er einfaldur ferill en það þýðir ekki að hann hafi alltaf verið sléttur og felldur, þó ég sé ættaður úr Sléttuhreppi," segir hann en kveðst þó ekki muna neinar svæsnar sögur að segja.

 

Hápunktana í lífinu telur Ólafur Helgi hafa verið að giftast og eignast börnin fjögur, Kristrúnu Helgu, Melkorku Rán, Kolfinnu Bjarney og Kjartan Thor. "Það er náttúrulega skemmtisaga út af fyrir sig að þau tvö síðasttöldu eru tvíburar en eiga ekki sama afmælisdaginn, því þau lentu hvort sínum megin við miðnættið. Það olli einhvern tíma þeim misskilningi úti í bæ á Akureyri að ég hefði eignast börnin hvort með sinni konunni," segir hann hlæjandi.

Þegar honum er þakkað fyrir spjallið og óskað ánægjulegs afmælisdags svarar hann hress:

"Þakka þér fyrir. Ég stefni eindregið að því."

 

Fréttablaðið mánudagurinn 2. september 2013

 

Skráð af Menningar-Staður