Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.09.2013 06:16

Bjarni Guðnason, prófessor emeritus - 85 ára

Lágmynd af föður Bjarni og systkini hans saman komin við lágmynd af föður þeirra, Guðna Jónssyni prófessor, við Leirubakka í Landsveit.

Talið frá vinstri: Bjarni, Gerður, Þóra, Jónína Margrét og Bergur.

 

Bjarni Guðnason, prófessor emeritus - 85 ára

Hafnaði atvinnutilboði frá Chelsea árið 1950

 

Bjarni fæddist í Reykjavík 3.9. 1928 og ólst upp við Stýrimannastíginn í Vesturbænum. Hann var auk þess í sveit flest sumur, var í vegavinnu á Vatnsskarði og á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp og eitt sumar á síld á Skógafossi frá Vestmannaeyjum.

Bjarni lauk stúdentsprófi frá MR 1948, prófi í forspjallsvísindum 1949, MA-prófi í íslenskum fræðum frá HÍ 1956 og varði doktorsritgerð í íslenskum fræðum við HÍ 1963, en ritgerðin fjallaði um Skjöldungasögu. Þá stundaði hann enskunám við University College í London 1949-50.

Bjarni var stundakennari við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og Iðnskólann í Reykjavík, lektor í íslenskri tungu og bókmenntum við Uppsalaháskóla 1956-62, kennari við MR 1962-63, stundakennari 1964-66, og prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við HÍ 1963-98.

Bjarni æfði og keppti í handknattleik og knattspyrnu með knattspyrnufélaginu Víkingi, keppti með liðinu sem landaði fyrsta Íslandsmeistaratitli Víkings í handknattleik og var þá í fremstu röð íslenskra handknattleiksmanna. Hann lék í meistaraflokki í báðum þessum greinum og lék fjóra landsleiki í knattspyrnu á árunum 1951-53 er landsleikir voru mun færri en nú tíðkast.

 

Lék frægasta landsleik Íslands

Fyrsti landsleikur Bjarna er jafnframt sá sögufrægasti í íslenskri knattspyrnu, gegn Svíum á Melavellinum 29.6. 1951, er Íslendingar unnu 4-3. Sama dag vann landslið Íslands í frjálsum íþróttum Norðmenn og Dani á móti á Bislett-leikvanginum í Osló.

Ríkarður Jónsson skoraði öll fjögur mörk Íslands í þessum leik en auk hans var Bjarni almennt talinn einn besti leikmaður íslenska liðsins.

Árið 1950 fékk Bjarni formlegt tilboð frá framkvæmdastjóra Chelsea um þjálfun og atvinnumennsku í knattspyrnu á vegum félagsins, en hafnaði boðinu kurteislega.

 

Pólitíkus og prófessor

Bjarni var kjörinn á þing fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna er Samtökin felldu Viðreisnarstjórnina 1971, sat á þingi fyrir Samtökin til 1974 og sat m.a. í utanríkismálanefnd og Norðurlandaráði, og sat þing Alþjóða þingmannasambandsins 1971. Hann var frambjóðandi Alþýðuflokksins í Austurlandskjördæmi 1978 og 1979 og vþm. Alþýðuflokksins í Reykjavík 1983-87. Hann var varaformaður Samtaka frjálslyndra og vinstri manna frá stofnun og til 1972 og formaður Frjálslynda flokksins 1973.

Bjarni var forseti heimspekideildar HÍ 1967-69 og 1975-77, fyrsti formaður Félags háskólakennara 1969-70 og sat í stjórn Happdrættis HÍ 1971-74.

Bjarni er félagi í Vísindafélagi Íslendinga. Hann hefur ritað um íslenskar fornbókmenntir í íslensk og erlend tímarit og haldið fyrirlestra við erlenda háskóla og fræðistofnanir, gaf út Danakonungasögur á vegum Hins íslenska fornritafélags og sendi frá sér skáldsöguna Sólstafir, 1987.

 

Fjölskylda

Eiginkona Bjarna er Anna Guðrún Tryggvadóttir, f. 14.6. 1927, kennari. Hún er dóttir Tryggva Þórhallssonar, f. 9.2. 1889, d. 31.7. 1935, forsætisráðherra, og k.h., Önnu Guðrúnar Klemensdóttur, f. 19.6. 1890, d. 27.1. 1987, húsfreyju.

Börn Bjarna og Önnu Guðrúnar eru Tryggvi Bjarnason, f. 5.10. 1955, lögfræðingur og fulltrúi á Akranesi en kona hans er Erna Eyjólfsdóttir, f. 4.6.1956, starfsmaður VR og eru synir þeirra Bjarni, f. 23.11. 1981, Steindór, f. 16.1. 1987, og Trausti, f. 30.10. 1988; Gerður Bjarnadóttir, f. 3.5. 1958, kennari en maður hennar er Jón Steindór Valdimarsson, f. 27.6. 1958, lögfræðingur og eru dætur þeirra Gunnur, f. 2.10. 1982, Halla, f. 5.3. 1986, og Hildur, f. 19.8. 1988; Auður Bjarnadóttir, f. 25.9. 1961, bankastarfsmaður en börn hennar eru Bjarni Tryggvason, f. 3.5. 1993, og Anna Guðrún Þorsteinsdóttir, f. 28. 3.1996; Unnur Bjarnadóttir, f. 1.7. 1963, bankastarfsmaður en dóttir hennar er Steinunn Helga Sigurðardóttir, f. 8.3. 1986.

Alsystkini Bjarna: Gerður, f. 4.3. 1926, fyrrv. skrifstofumaður; Jón, f. 31.5. 1927, d. 25.1. 2002, prófessor í sögu við HÍ; Þóra, f. 17.2. 1931, fyrrv. móttökuritari; Margrét, f. 30.11. 1932, d. 13.5. 1952.

Hálfsystkini Bjarna, samfeðra: Einar, f. 13.4. 1939, d. 20.12. 2005, viðskiptafræðingur; Bergur, f. 29.9. 1941, d. 5.11. 2009, lögfræðingur; Jónína Margrét, f. 17.3. 1946, útgáfustjóri hjá Landlæknisembættinu; Elín, f. 14.10. 1950, d. 8.4. 2009.

Foreldrar Bjarna voru Guðni Jónsson, f. á Gamla-Hrauni við Stokkseyri 22.7. 1901, d.. 4.3. 1974, prófessor við HÍ, og f.k.h., Jónína Margrét Pálsdóttir, f. á Eyrarbakka 4.4. 1906, d. 2.10. 1936, húsfreyja.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 3. september 2013

 

 

Skráð af Menningar-Staður