Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.09.2013 20:15

Hönnunarsamkeppni til heiðurs íslensku sauðkindinni

 

Hönnunarsamkeppni til heiðurs íslensku sauðkindinni

 

Verkefnastjórn söfnunarinnar „Gengið til fjár“ efnir nú til hönnunar­samkeppni í samvinnu við Ístex og Landssamtök sauðfjár­bænda um gerð peysu úr íslenskri ull þar sem þema samkeppninnar er óblíð veðrátta.

Þann 10. september 2012 skall á aftakaveður á Norður- og Norðausturlandi með skelfilegum afleiðingum fyrir bændur og búfénað á svæðinu. Talið er að um tíu þúsund fjár hafi orðið úti.

Eftir veðuráhlaupið sannaðist þó hið fornkveðna hversu íslenska ullin er einstök; hlý og einangrandi, því langt fram á haust fannst sauðfé á lífi sem grafist hafði í fönn.

Í kjölfar óveðursins hrintu Landssamtök sauðfjárbænda af stað söfnunarátaki „Gengið til fjár“ vegna þess tjóns sem sauðfjárbændur á Norðurlandi urðu fyrir í óveðrinu. Fljótlega komu upp þær hugmyndir að efna til ritgerðasamkeppni um vitsmuni íslensku forystukindarinnar og hönnunarsamkeppni um peysu úr íslensku ullinni.

Hönnun peysunnar skal endurspegla þema samkeppninnar um óblíða veðráttu og skilyrði er sett að að peysan sé úr íslenskri ull, sama hvort notað er band eða lopi, sauðalitir eða aðrir litir.
 
Vegleg verðlaun í boði

Fyrstu verðlaun eru 100 þús. kr., flugmiði fyrir tvo með Flugfélagi Íslands sem gildir á áfangastaði félagsins innanlands og gisting og kvöldverður á Icelandair hóteli.
Önnur verðlaun eru 70 þús. kr og værðarvoð frá Ístex.
Þriðju verðlaun eru 30 þús. kr og værðarvoð frá Ístex.
 
Í dómnefnd sitja:
Gísli Einarsson, ritstjóri Landans,
Hulda Hákonardóttir, Markaðs- og kynningarstjóri Ístex og
Jóhanna E. Pálmadóttir, bóndi og framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands.
 
Peysunum skal skilað til Ístex, Völuteigi 6, 270 Mosfellsbæ, fyrir 1. október 2013 merktum með dulnefni en nafn, heimilisfang og símanúmer látið fylgja með í lokuðu umslagi merktu dulnefninu. Peysunum verður skilað að lokinni keppni.

Verðlaunaafhending verður fyrsta vetrardag, laugardaginn 26. október 2013. Til stendur að efna til sýningar á öllum peysum sem sendar verða í keppnina.

Markmiðið með þessari samkeppni er að heiðra íslensku sauðkindina og íslenska prjónahefð og stuðla að listiðnaði og hönnun.

 

Af: www.bbl.is

 

Fallegar peysur og menn og konur.

 

Skráð af Menningar-Staður