Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

07.09.2013 06:04

Merkir Íslendingar - Sigfús Halldórsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Sigfús Halldórsson

 

Merkir Íslendingar - Sigfús Halldórsson

 

Sigfús Halldórsson tónskáld fæddist í Reykjavík 7. september 1920. Foreldrar hans voru Halldór Sigurðsson úrsmiður og Guðrún Eymundsdóttir húsfreyja.

Halldór var sonur Sigurðar, hreppstjóra í Skarðshlíð undir Eyjafjöllum, bróður Ingunnar, langömmu Þorsteins Thorarensens rithöfundar, föður Bjargar Thorarensen lagaprófessors. Sigurður var sonur Halldórs, b. í Álfhólum í Landeyjum Þorvaldssonar, bróður Björns, föður Þorvalds, ríka á Þorvaldseyri.

Guðrún var dóttir Eymundar Eymundssonar, b. á Skjaldþingsstöðum, bróður Sigfúsar bóksala og Sigríðar, langömmu Gríms Helgasonar, forstöðumanns handritadeildar Landsbókasafnsins, föður Vigdísar rithöfundar.

Eftirlifandi eiginkona Sigfúsar er Steinunn Jónsdóttir og eignuðust þau tvö börn.

Sigfús lauk prófi í leiktjaldahönnun og málaralist við Slade Fine Art School í

Lundúnaháskóla 1945, stundaði nám í Stokkhólmsóperunni 1947-48, lauk prófi í uppeldis- og kennslufræði, stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við Tónlistarskóla Reykjavíkur.

Sigfús var afkastamikill málari og hélt fjölda málverkasýninga. Hans verður þó fyrst og fremst minnst sem eins ástsælasta tónskálds þjóðarinnar á síðustu öld. Sigfús samdi fjölda frábærra sönglaga sem mörg hver slógu í gegn sem dægurlög á sínum tíma. Mörg þessara laga hafa elst svo vel að þau hafa orðið sífellt vinsælli með hverri kynslóð og eru nú klassískar perlur. Lög Sigfúsar eru melódísk og mörg hver angurvær, ekki síst lög hans við ljóð Tómasar Guðmundssonar.

Meðal þekkustu laga Sigfúsar eru Litla flugan, Dagný, Við eigum samleiö, Tondeleyó og Vegir liggja til allra átt. Síðastnefnda lagið er fyrsta íslenska kvikmyndalagið, samið fyrir myndina 79 af stöðinni.

Sigfús lést 21. desember 1996.

Morgunblaðið laugardagurinn 7. september 2013 - Mrkir Íslendingar

 

Skráð af Menningar-Staður