Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

01.10.2013 05:22

Fleiri eftirlitsmyndavélar í Árborg

Eyrarbakki.

 

Fleiri eftirlitsmyndavélar í Árborg

 

Bæjarráð Árborgar samþykkti í síðustu viku að vísa tillögu um að setja upp eftirlitsmyndavélar við innkomuleiðir allra þéttbýliskjarna í sveitarfélaginu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir næsta ár.

 

Í byrjun þessa árs samþykkti sveitarfélagið að setja upp fjórar slíkar myndavélar á Selfossi og er ein þeirra þegar komin upp við Ölfusárbrúna. Þrjár aðrar vélar verða settar upp í haust við innkomuleiðir í bæinn.

 

Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði tillöguna fram en hann segir að hún sé rökrétt framhald af því að setja eftirlitsvélarnar upp á Selfossi.

 

Eftir eigi að útfæra hvar vélunum yrði komið fyrir en hugmyndin sé að þær verði við þéttbýliskjarnana Eyrarbakka, Stokkseyri og Tjarnabyggð. Það verði væntanlega gert í samráði við lögregluna.

 

Kostnaður við að setja upp vélarnar hefur ekki enn verið áætlaður en Eggert segir að það verði gert í framhaldinu. Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, segir að mikil umræða hafi verið um skort á löggæslu.

 

Ekki njósnir um íbúana

 

»Þetta er okkar viðleitni til þess að styrkja hana með nútímatækni. Vélarnar hafa líka fælingarmátt. Við teljum að menn hegði sér ósjálfrátt betur þegar svona vélar eru settar upp, bæði varðandi akstur og umgengni,« segir Eyþór.

 

Efni úr eftirlitsvélinni við Ölfusárbrú hefur ekki verið vistað hingað til og því hefur það ekki nýst lögreglu við rannsókn sakamála þó að hún hafi aðgang að vélinni, að sögn Eyþórs. Byrjað verði á því nú í haust þegar hinar vélarnar þrjár verða teknar í notkun.

 

Hann leggur áherslu á að vélunum sé ekki ætlað að hafa eftirlit með íbúum sveitarfélagsins. »Vélarnar beinast ekki að heimilum fólks heldur aðeins að umferðaræðum. Þetta er þessi fína lína sem þarf að passa, að gæta öryggis en einnig friðhelgi heimilisins og vera ekki að njósna um fólk,« segir Eyþór.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 1. október 2013

 

Eyrarbakki fyrir allnokkrum árum.

 

Eggert Valur Guðmundsson. 

Eyþór Arnalds.

 

Skráð af Menningar-Staður