Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.10.2013 15:59

Hagkvæma húsið á Eyrarbakka

Húsið á Eyrarbakka

Haldið var upp á formleg verklok „Hagkvæma hússins“ sl. föstudag. Frá vinstri: Ástráður Guðmundsson, byggingarstjóri hússins, Gestur Ólafsson, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Byggingarþjónustunnar ehf.,  Hákon Ólafsson, fyrrum forstjóri Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins, Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins Ölfus, Björn Marteinsson, verkfræðingur, arkitekt og verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð, sem stýrt hefur rannsóknum og prófunum, sem fram hafa farið við byggingu hússins,  og Þorsteinn Ingi Sigfússon,  forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

 

Hagkvæma húsið á Eyrarbakka

 

Haldið var upp á verklok „Hagkvæma hússins“ á Eyrarbakka síðastliðinn föstudag að viðstöddu fjölmenni.  

Hagkvæma húsið er staðsett að Túngötu 9 á Eyrarbakka. Það sameinar ýmsar tækninýjungar og er byggt með vistvæn sjónarmið og  „algilda hönnun“ að leiðarljósi. Vonir eru bundnar við að tilraunahúsið á Eyrarbakka geti verið framfaraskref á sviði umhverfisvænnar og hagkvæmrar hönnunar og framkvæmda.  Í sól og blíðu við opnun hússins var tækifærið notað til að fara yfir tilurð verkefnisins og framkvæmd auk þess sem möguleikar hússins voru kynntir áhugasömum gestum. Byggingarþjónustan ehf. stendur að verkefninu með styrk frá Íbúðalánasjóði og í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og með þátttöku Mannvirkjastofnunar.

 

Húsið er framlag til bættrar húsagerðar

Segja má að bygging þessa húss sé framlag Byggingarþjónustunnar  ehf. til bættrar húsagerðar á Íslandi á 21. öldinni, að sögn Gests Ólafssonar, frumkvöðuls, arkitekts og framkvæmdastjóra Byggingarþjónustunnar ehf.  „Í mörg ár hefur verið bent á fjölmörg  atriði, sem betur mættu fara  í íslenskum húsbyggingum án þess að þau atriði hafi komist til framkvæmda og betrumbætur gerðar í byggingum.  Þótt árlegar fjárfestingar í íslenskum byggingariðnaði séu um 200 milljarðar á ári, er litlu sem engu fé varið til rannsókna á þessu sviði og mjög lítið um að verið sé að þróa og innleiða nýjungar,“ segir Gestur, sem segir húsið til sölu, fáist viðunandi tilboð.

Vistvæn „algild“ hönnun að leiðarljósi

„Verkefnahugmyndin hefur legið á teikniborðinu hjá okkur í mörg ár án þess að viðskiptavinir okkar hafi sýnt henni nokkurn áhuga. Því ákvað Byggingarþjónustan ehf. að ríða á vaðið og byggja húsið til að sýna hvernig hægt væri að byggja einfalt, notadrjúgt og tæknilega vel gert hús án þess að það yrði alltof dýrt. Húsið er hannað með vistvæna „algilda“ hönnun að leiðarljósi og er vel aðgengilegt hreyfihömluðum. Í húsinu reynir á ýmsar nýjungar og tæknilausnir, m.a. nýja tegund undirstaða, aðferð við einangrun og óloftræst þak. Húsið er loftræst með svokölluðum loft-í-loft varmaskiptum, það þarfnast mjög lítils viðhalds og notar ekki nema um þriðjung þess rafmagns sem hefðbundið íbúðarhús notar til lýsingar.  Í húsinu eru tvö hjónaherbergi, sem eykur notagildi þess auk þess sem það hentar þá vel fólki, sem komið er á efri ár og vill fresta því að flytja á elliheimili,“ segir Gestur.

 

Af www.nmi.is

 

Skráð af Menningar-Staður