Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.10.2013 05:38

Merkir Íslendingar - Stephan G. Stephansson

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Stephan G. Stephansson

 

Merkir Íslendingar - Stephan G. Stephansson

 

Stephan G. Stephansson skáld fæddist á Kirkjubóli við Víðimýri í Skagafirði 3. október 1853. Foreldrar hans voru Guðmundur Stefánsson, bóndi á Kirkjubóli, og k.h., Guðbjörg Hannesdóttir frá Reykjarhóli.

Stephan kvæntist í Bandaríkjunum náfrænku sinni, Helgu Jónsdóttur. Þau eignuðust átta börn og komust sex þeirra til fullorðinsára.

Á æsku- og unglingsárum þráði Stephan að komast til mennta, en foreldrar hans bjuggu við sára fátækt. Hann sagði síðar þá raunasögu, að þegar hann var unglingur hefði hann horft á eftir skólapiltum ríða til Reykjavíkur og hefði þá fleygt sér niður í laut og kjökrað.

Hann var búsettur í Skagafirði til 15 ára aldurs en var eftir það vinnumaður í Þingeyjarsýslu þar til hann fór með foreldrum sínum og systur til Vesturheims árið 1873. Þar vann Stephan fyrst verkamannastörf, einkum við járnbrautarlagnir og skógarhögg, en einbeitti sér síðan alfarið að bústörfum á eigin býlum.

Hann bjó fyrst í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum í fimm ár, var síðan búsettur að Görðum í Norður-Dakóta í 10 ár, flutti síðan í Alberta-fylki í Kanada árið 1889 og bjó þar til dauðadags.

Stephan var orðinn fertugur er fyrsta ljóðabók hans kom út, Úti á víðavangi, útg. 1894. Ljóðabækur hans urðu fjölmargar og flestar gefnar út í Reykjavík. Meginverk hans eru þó Andvökur I-VI sem komu út á árunum 1909-38. Þær draga heiti sitt af því að hann var oft andvaka og orti því helst á nóttunni.

Stephan var sósíalisti og raunsæis- og ádeiluskáld. Hann orti um margvísleg hugðarefni samtímans og deildi gjarnan á styrjaldir, auðvald og kirkjuvald en orti einnig hárómantísk ættjarðarljóð og sótti yrkisefni í fornbókmenntirnar. Málfar hans var fjölskrúðugt en hann hefur einnig verið gagnrýndur fyrir tyrfinn stíl.

Minnisvarði um Stephan var reistur á Arnarstapa í Skagafirði 1953, er öld var liðin frá fæðingu hans.

Stephan lést  9. ágúst 1927.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 3. október 2013 - Merkir Íslendingar.

 

Minnisvarði um Stephan G. Stephansson var reistur á Arnarstapa í Skagafirði árið 1953, í tilefni af aldarafmælis skáldsins. Árið 1945 reifaði Eyþór Stefánsson tónskáld hugmyndina um byggingu minnisvarðans á skemmtun í Litla-Garði í Hegranesi. Í kjölfarið var stofnuð nefnd sem vann að því að þessi hugmynd yrði að veruleika. Nefndarmenn voru Guðjón Ingimundarson, formaður UMSS, Óskar Magnússon, bóndi í Brekku og Eyþór Stefánsson. Ríkarður Jónsson myndhöggvari var fengin til að gera hugmyndir um minnisvarðan og hannaði hann og gerði lágmyndir á varðann. Staðsetning var ákveðin á Arnastapa, skammt frá fæðingarstað skáldsins og í alfaraleið. Hróbjartur Jónasson múrarameistari á Hamri hafði yfirumsjón með byggingu varðans og hófust framkvæmdir 23. júní 1953. Þann 19. júlí 1953 var minnisvarðinn afhjúpaður að viðstöddu miklu fjölmenni í góðu veðri.

Arnarstapi er fallegur útsýnisstaður sem fer fram hjá fæstum sem keyra um Skagafjörð. Við minnisvarðann hefur verið gerður áningarstaður og upplýsingaskilti um leiðir og ferðaþjónustu í Skagafirði og er staðurinn því vinsæll áningarstaður fyrir ferðamenn.

 

Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

 

 

Skráð af Menningar-Staður