Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

05.10.2013 05:56

Best að sjá norðurljósin í ár

 

Vetrarmyndir frá Eyrarbakka. Stjörnu- og norðurljós. Ljósm.: Halldór Páll Kjartansson á Eyrarbakka.

 

 

 

Best að sjá norðurljósin í ár

 

• Ásókn í norðurljósaferðir • Spáin hefur gefið góða raun

 

 

„Best er að sjá norðurljósin á þessu ári en þau ná toppnum núna, sé miðað við tíu til tólf ára tímabil,“ segir Grétar Jónsson, einn af eigendum Aurora Reykjavík, norðurljósaseturs sem opnaði í sumar. Mikið hefur verið að gera eftir opnun. Grétar segist ekki vera hræddur um að ferðamönnum fækki, eftir að toppi norðurljósanna hafi verið náð í ár. „Það er alltaf mikill áhugi á að fræðast um þetta náttúrufyrirbæri. Þó að líkurnar minnki þá sjást alltaf norðurljós,“ segir Grétar.

 

„Norðurljósaspáin er mikið notuð af þeim sem gera út á norðurljós, eins og ferðaþjónustunni,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um norðurljósaspá Veðurstofunnar. Hann segir hana nokkuð áreiðanlega en bendir hinsvegar á að „skýjahuluspáin sé með viðkvæmustu spáafurðum. Skýjaeðlisfræðin er flókin og þessar spár eru ekki komnar eins langt og almennar spár,“ segir Óli Þór. Að sjá norðurljósin sé alltaf „svolítið lottó“.

„Norðurljósaferðir verða vinsælli með hverju árinu. Salan á ferðum í vetur til Íslands gengur vel og hafa norðurljósin alltaf töluverð áhrif á söluna,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Hann segir að yfir tugþúsundir útlendinga kaupi ferðir til landsins yfir vetrarmánuðina meðal annars vegna norðurljósanna. Ferðirnar njóta mikilla vinsælda hjá Bretum og Bandaríkjamönnum.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 5. október 2013.

 

Norðurljós séð frá Þingvöllum. Ljósm.: Halldór Páll Kjartansson á Eyrarbakka.

 

Skráð af Menningar-Staður.