Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

05.10.2013 06:06

Merkir Íslendingar - Albert Guðmundsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Albert Guðmundsson var fæddur 5. október 1923

 

Merkir Íslendingar - Albert Guðmundsson

 

Albert Guðmundsson, knattspyrnukappi og ráðherra, fæddist í Reykjavík 5. október 1923 og ólst þar upp við Smiðjustíginn.

Hann var sonur Guðmundar Gíslasonar, gullsmiðs í Reykjavík, og k.h., Indíönu Katrínar Bjarnadóttur húsfreyju.

Albert var í Samvinnuskólanum og varð þá góðvinur Jónasar gamla frá Hriflu. Hann stundaði síðan nám við Skerry's College i Glasgow.

Albert æfði og keppti í knattspyrnu með Val, varð fyrsti atvinnumaður Íslendinga í knattspyrnu, komst í hóp fremstu knattspyrnumanna Evrópu og lék um árabil í Glasgow, London, Nancy, Mílanó, París og Nice. Þessi glæsilegi frægðarferill átti án efa eftir að setja sitt mark á framgöngu hans og viðmót er hann gerðist stjórnmálamaður. Albert var stórkaupmaður í Reykjavík frá 1956, alþm. Reykvíkinga 1974-89, fjármálaráðherra 1983-85, iðnaðarráðherra 1985-87, sendiherra í París frá 1989, var borgarfulltrúi 1970-86 og sat í borgarráði 1973-83. Þá var hann frambjóðandi í forsetakjöri árið 1980.

Albert virtist hægur í framgöngu en var í raun aðsópsmikill og geðríkur stjórnmálamaður. Hann var um margt dæmigerður fulltrúi borgaralegra gilda: ónæmur fyrir hugmyndafræðilegum skýjaborgum, sjálfmiðaður, marksækinn og harðduglegur en engu að síður hjartahlýr og einstaklega bóngóður. Stöðugar fyrirgreiðslur hans fyrir mikinn fjölda einstaklinga úr öllum flokkum varð til þess að stuðningsmannahópur hans náði langt út fyrir raðir Sjálfstæðisflokksins og varð að „Hulduher“ sem kom Albert í fyrsta sæti í prófkjöri í Reykjavík 1983, meðan formaður flokksins, Geir Hallgrímsson, lenti í sjöunda sæti. Þorsteinn Pálsson vék Albert úr ráðherraembætti 1987. Sú ákvörðun varð afdrifarík: Albert klauf þá Sjálfstæðisflokkinn með stofnun Borgaraflokksins en það veikti mjög Þorstein sem formann Sjálfstæðisflokksins og hafði umtalsverð áhrif á stjórnmálaþróun næstu ára.

Albert lést í Reykjavík 7. apríl 1994.

Morgunblaðið laugardagurinn 5. október 2013 - Merkir Íslendingar

Albert Guðmundsson sem leikmaður Arsenal 1946.

 

Skráð af Menningar-Staður