Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

08.10.2013 06:30

Merkir Íslendingar - Björn Jónsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Björn Jónsson

 

Merkir Íslendingar - Björn Jónsson

 

Björn Jónsson, ritstjóri og ráðherra, fæddist í Djúpadal í Gufudalssveit 8. október 1846. Foreldrar hans voru Jón Jónsson, bóndi í Djúpadal, og Sigríður Jónsdóttir húsfreyja.

 

Eiginkona Björns var Elísabet Sveinsdóttir, systir Hallgríms biskups, og Sigríðar, móður Haraldar Níelssonar prófessors. Elísabet var dóttir Sveins, prófasts á Staðarstað Níelssonar, en meðal barna hennar og Björns voru Sveinn, fyrsti forseti lýðveldisins, og Ólafur, stofnandi og ritstjóri Morgunblaðsins.

Björn lauk stúdentsprófi og stundaði laganám en lauk ekki prófi. Hann stofnaði blaðið Ísafold 1874, fékk konungsgleyfi fyrir prentsmiðjurekstri hér á landi og pantaði prentsmiðju frá Danmörku. Blaðið Ísafold var fyrst prentað í þessari prentsmiðju 16.6. 1877 og er stofnun Ísafoldarprentsmiðju miðuð við þann dag.

Björn var ritstjóri Ísafoldar til 1909 og starfrækti jafnframt prentsmiðjuna, frá 1886, í húsi sínu við Austurstræti, Ísafoldarhúsinu, sem nú stendur við Aðalstræti.

Á heimastjórnarárunum var Björn forsprakki Landvarnarmanna, síðar sjálfstæðismanna eldri, og því helsti andstæðingur Hannesar Hafstein. Eftir stórsigur Uppkastsandstæðinga í kosningunum 1908 varð Björn annar ráðherra Íslands 1909. Sem ráðherra stenst hann ekki samanburð við Hannes Hafstein. Björn gerði m.a. þau pólitísku mistök að reka bankastjóra Landsbankans, Tryggva Gunnarsson, móðurbróður Hannesar, og í mars 1911 hrökklaðist Björn frá völdum.

Björn var alþm. 1878-80 og 1908-1912 og bæjarfulltrúi í Reykjavík 1885-91. Hann var áhrifamikill ritstjóri, eindreginn góðtemplari og stuðingsmaður Einars H. Kvaran í umdeildum sálarrannsóknum Tilraunafélagsins á fyrstu árum aldarinnar. Hann var beittur penni en ákafamaður og líklega stundum heldur tilfinningaríkur.

Björn lést 24. nóvember 1912.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 8. október 2013 - Merkir Íslendingar

 

Skráð af Menningar-Staður