Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

12.10.2013 06:08

120 ár frá fæðingu Páls Ísólfssonar 12. október 1893

Páll Ísólfsson

Páll Ísólfsson.

 

120 ár frá fæðingu Páls Ísólfssonar 12. október 1893

 

Páll Ísólfsson var fæddur í Símonarhúsi á Stokkseyri 12. okt. 1893. Foreldrar hans voru Ísólfur Pálsson og kona hans Þuríður Bjarnadóttir. Páll er af hinni kunnu Bergsætt, en í þeirri ætt eru þjóðkunnir tónlistarmenn, þar á meðal tónskáldin Sigfús Einarsson og Friðrik Bjarnason. 

Árið 1912 lærði Ísólfur tónstillingar og hljóðfærasmíði í Kaupmannahöfn og stundaði hvortveggja eftir það í Reykjavík.

Árið 1934 kom út eftir hann sönglagasafnið „Fjóla“ með 34 sönglögum. Alkunnasta lagið er „Í birkilaut hvíldi ég bakkanum á“. Sönglög hans eru traust og laus við alla tilgerð og mörg hafa náð vinsældum hjá þjóðinni. Í Sálmasöngsbókinni frá 1936 og Viðbætinum frá 1946 eru sálmalög eftir hann. Ísólfur andaðist í Reykjavík 17. febrúar 1941.

Páll Ísólfsson kom til Reykjavíkur 1908 og lærði að leika á harmonium hjá Sigfúsi Einarssyni, frænda sínum. Um skólalærdóm var ekki að ræða, því unglingurinn var látinn vinna fyrir sér, eins og, hann best gat, síðast í Östlundsprentsmiðju - Það stóð til, að hann yrði nótnaprentari. Það nám varð þó endasleppt, því að markið var sett hærra. Jón Pálsson, föðurbróðir Páls, sá hvað í frænda sínum bjó og styrkti hann til tónlistarnáms í Leipzig. Jón Pálsson var lengi aðalgjaldkeri Landsbankans. Hann var organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík 1903-1916 og mikill áhugamaður um kirkjusöng.

Páll var í tónlistarskólanum í Leipzig 1913-1919. Hann lærði orgelleik sem aðalfag hjá Karl Straube og píanóleik sem aukafag hjá Robert Teichmüller, sem var frægur kennari og góður uppeldisfræðingur. Þess skal getið, að meðal nemenda Teichmüllers á þessum árum voru einnig Annie og Jón Leifs. Af öðrum kennurum Páls skal nefna Hans Grisch, sem kenndi hljómfræði. Um hann segir Páll: „Tímarnir hjá honum voru skemmtistundir. Betri kennara hefi ég ekki haft um ævina.“

Karl Straube (1873-1950) var einn af fremstu orgelsnillingum heimsins og mikilsmetinn tónlistarmaður. Hann var organisti við Tómasarkirkjuna í Leipzig 1902-1918 og síðan kantor til 1940. Þessu embætti gegndi Bach í 27 ár (1723-1750) og hefur síðan verið vandað mjög val eftirmanna hans í stöðuna.

Straube valdi Pál úr nemendum sínum sem aðstoðar organleikara og staðgöngumann sinn við kirkjuna. Páll minnist á þetta í bókinni „Hundaþúfan og hafið“ og segir þar m. a.: „Um þetta leyti var auðvitað ekki um auðugan garð að gresja í Þýzkalandi, þegar leitað var að organista, sem gæti tekið að sér starf við stóra kirkju, því þeir voru flestir á vígstöðvunum.“ Síðan segir hann: „Ég gat ekki orðið fastur organisti við kirkjuna, því ég var útlendingur.“

Frásögn Páls er hógvær, en öllum er ljóst, hvílíkt traust Straube hefur haft á hinum íslenzka nemanda sínum.

Í lok heimsstyrjaldarinnar var Straube skipaður kantor við kirkjuna, en Þjóðverjinn Günther Ramin (1898-1956) organisti. Ramin var náinn vinur Páls og samtíma honum lærisveinn hjá Straube. Ramin gegndi organistastarfinu til 1940, en þá var hann skipaður kantor við kirkjuna. Ramin var talinn einn af mestu orgelsnillingum heimsins um sína daga. 

Eftir að Páll var kominn heim til Reykjavíkur að námi loknu, hélt hann orgeltónleika og var við tónlistarstörf. Straube hafði á sínum tíma hvatt hann til að fara til Frakklands og kynnast hinum franska orgelstíl. Hann sagði, að orgelskóli Frakka væri strangur og í flestu ólíkur þeim þýzka, og Frakkar hefðu nánari tilfinningu fyrir formi og stíl. Páll dvaldi í París nokkra vetrarmánuði 1924-1925 við framhaldsnám hjá Joseph Bonnet (1884-1944), víðfrægum orgelsnillingi og tónskáldi, sem sérstaklega var frægur fyrir meðferð sína á orgelverkum Bachs og César Franck. Um námið segir Páll m. a.: „Í tímum hjá Bonnet kynntist ég franska orgelstílnum og nýr heimur laukst upp fyrir mér, ferskur og heillandi og ógleymanlegur. Frakkar telja sig leika Bach stílhreinna en Þjóðverjar og meira í anda meistarana. Þeir elska Bach og dýrka hann.“

Páll efndi ungur að aldri til hljómleika víðsvegar um Evrópu, m.a. í Leipzig, Berlín, München, Kaupmannahöfn og Bæheimi og hvarvetna viðurkenndur mikill orgelsnillingur. Hér í Reykjavík hélt hann í fyrsta sinn sjálfstæða orgeltónleika árið 1916, meðan hann var við nám. Eftir að hann var seztur að aftur í Reykjavík eftir dvölina í Leipzig, hélt hann framan af næstum árlega orgeltónleika, en er frá leið urðu þeir strjálari, enda þá orðinn margskonar störfum hlaðinn.

Páll er orgelsnillingur í fremstu röð og er list hans stórbrotin. Að sjálfsögðu hefur hann leikið mikið tónsmíðar eftir Bach og er hann ágætur Bachspilari. Ennfremur hefur hann leikið oft tónsmíðar eftir Buxtehude og aðra meistara barokktímabilsins. Þá hefur hann leikið orgelverk Regers , sem var einn af kennurum hans í Leipzig. Eftir framhaldsnámið í París hafa tónsmíðar eftir César Franck verið honum hugstæð viðfangsefni. 

Páll kom fyrst fram opinberlega í sönglífi Reykjavíkur á aldarafmæli Péturs Guðjóhnsens 29. nóv. 1912. Þá var samsöngur haldinn í Dómkirkjunni undir stjórn Sigfúsar Einarssonar og m. a. sungið hið fagra lag Sigfúsar fyrir einsöng, og kór með orgelundirleik við kvæði Guðmundar Guðmundssonar um hinn merka brautryðjanda í íslenzkri tónlist. Páll lék á orgelið.

Páll Ísólfsson er orgelsnillingur par exellence. Sem slíkur hefur hann óumdeilanlega yfirburði. En hann hefur einnig sem píanóleikari, söngstjóri og hljómsveitarstjóri margoft komið opinberlega fram í tónlistarlífinu, eins og tekið var fram í upphafi þessarar greinar. Hann var fastur stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur í 12 ár (1924-1936) með föstum launum úr bæjarsjóði Reykjavíkur. Hann stjórnaði kóruppfærslum - aðallega kirkjuhljómleikum - á árunum 1923-1930, og nokkrum sinnum eftir það, t.d. „Sköpuninni“ eftir Haydn í desember 1939, „Reqiuem“ eftir Cherubini í október 1941, að ógleymdri Alþingishátíðarkantötunni eftir sjálfan hann á fimmtugsafmæli hans árið 1943. Ennfremur hefur hann stjórnað sinfóníutónleikum og sem píanóleikari hefur hann margoft 1eikið undir hjá söngvurum okkar og söngkonum. 

Af hinum mörgu störfum Páls um ævina mun organleikarastarfið hafa verið honum hugfólgnast. Hann var organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík 1926-1939. Hann leysti þá af hólmi Kjartan Jóhannesson, hinn mætasta mann, sem gegnt hafði starfinu með prýði. Þegar Páll var tekinn við, þótti ekki annað hæfa en að sett yrði nýtt pípuorgel í kirkjuna og var það gert strax sama árið. Þegar Sigfús Einarsson féll frá um vorið 1939 var Páll skipaður eftirmaður hans við dómkirkjuna í Reykjavík. Dómkirkjuorganistastarfinu gegndi Páll 1939-1967, orðinn 74 ára, er hann lét af því starfi. Tók þá Ragnar Björnsson, lærisveinn hans, 
við starfinu. 


Merkilegt verk unnu þeir frændur Páll og Sigfús, er þeir undirbjuggu til prentunar Sálmasöngsbókina 1936. Í formálanum segja þeir: „Það er kunnugt, að hin gömlu sálmalög frá 15. og 16. öld, hafa tekið allmiklum breytingum á síðari tímum, með því að laglínurnar hafa afbakast, en þó einkum hrynjandi. Þá hefur og raddsetning þessara laga færst í það horf, sem nú er af mörgum talið í ósamræmi við lögin sjálf og jafnvel ókirkjuleg. Fyrir því hafa menn tekið sér fyrir hendur að færa hinn gamla gullaldarsálmasöng í upprunanlegan búning, svo hann geti hljómað á ný með fornri prýði.“ Síðan segja þeir: „hjá oss getur tæplega verið um að ræða snöggar og róttækar breytingar í slíkum efnum, enda eru hin gömlu alkunnu lög óbreytt hér frá því, sem verið hefur í hinum nýrri kirkjusöngsbókum vorum, bæði laglína og hljóðfall.“ 

Þeir hafa þó að nokkru leyti tekið tillit til hinnar nýju stefnu og birt fáein af hinum gömlu sálmalögum í tveim myndum, þ.e. þeirri, sem algeng er á síðari tímum og þeirri upprunalega, „rythmisku“.

Hér að framan hefur verið minnst á forystumanninn og orgelsnillinginn, en nú verður minnst á tónskáldið.

 

Páll hefur samið tónsmíðar fyrir píanó, einsöng, kór, orgel og hljómsveit, stórar og smáar í sniðum, og margar fyrir löngu orðnar þjóðkunnar. List hans á sér rætur í hinum rómantíska-klassíska menningararfi, en er persónulega mótuð - lögin bera svip höfundarins. Jón Þórarinsson tónskáld hefur lýst höfundareinkennum hans þannig og hygg ég, að sú lýsing sé rétt: „Stíllinn í tónverkum hans ber talsverð merki hins þýzka skóla frá fyrstu áratugum aldarinnar. Þau eru rómantísk að yfirbragði og hljómbyggingu, en klassísk að formi. Svipur þeirra er norrænn og karlmannlegur, og mörg þeirra eru stór í sniðum, tilþrifamikil og

hugmyndaauðug, og stundum - ekki sízt í síðari verkunum gætir sterkra áhrifa íslenskra þjóðlaga.“

Af prentuðum verkum eru píanóhefti („Glettur“ o.fl.), 12 forspil fyrir orgel eða harmonium og þrjú sönglaga hefti. Ennfremur sönglögin úr „Gullna hliðinu“ og lög úr Alþingishátíðarkantötunni 1930.

Af sönglögunum hefur þjóðin sérstaklega mætur á „Í dag skein sól“, „Nú læðist nótt um lönd og sæ“, „Sáuð þið hana systur mína“, „Blítt er undir björkunum“ („Ég beið þín lengi, lengi“) úr „Gullna hliðinu“ og fleiri lögum, sem hér verða ekki talin. Í þessum lögum er 1jóðræn fegurð. Þá hefur sálmalagið „Víst ert þú, Jesús, kóngur klár“ náð miklum vinsældum; lagið er gamalt íslenzkt passíusálmalag, en endurvakið til lífsins í raddasetningu Páls. Af kórlögunum er „Brennið þið vitar“ þekktast.  

Af meiriháttar söngverkum Páls ber fyrst að nefna Alþingishátíðarkantötuna 1930 og Skálholtskantötuna, hvorttveggja verðlaunaverk.

Alþingishátíðarkantatan 1930 er stórbrotið verk. Verkið rís hæst í inngangskórnum („Lofsöngnum“), en þekktasti kaflinn er „Brennið þið vitar“ Þá er einnig tilþrifamikill kaflinn „Þér norrænu hetjur af konungakyni.“

„Chaconne“ er orgelverk byggt á upphafstöktunum í Þorlákstíðum. Er þetta mikil og vönduð tónsmíð, samin vegna orgelleikaramóts í Stokkhólmi, en þangað fór Páll sem fulltrúi Íslands og þurfti þá að flytja íslenzkt orgelverk.

„Inngangur og Passacaglia“ er einnig samið fyrir orgel, en síðar fært í hljómsveitarbúning. Er þetta einnig mikil og vönduð tónsmíð. Verkið er samið í tilefni af norrænni tónlistarhátíð árið 1938. 

Af öðrum hljómsveitarverkum skal nefna Hátíðarforleik við vígslu Þjóðleikhússins 1950 og Hátíðarmars frá 1961, helgaður 50 ára afmæli Háskóla Íslands og vígslu Háskólabíós, hvortveggja tækifærisverk. 

Ennfremur eru lögin eftir hann úr leikritum tækifærisverk , samin af því að á þeim þurfti að halda, en leikritin eru þessi: „Gullna hliðið“ (Davíð Stefánsson) „Veizlan á Sólhaugum“ (Ibsen) og „Myndabók Jónasar“ (Tekin saman af Halldóri Kiljan Laxnes).

Páll hefur verið sæmdur stórkrossi Fálkaorðunnar og erlendum heiðursmerkjum. Hann var gerður að heiðursdoktor Oslóarháskóla 1946.

Páll er tvíkvæntur. Fyrri konan, Kristín Norðmann, andaðist fyrir aldur fram. Dóttir þeirra er söngkonan Þuríður Pálsdóttir. Kristín Norðmann var systir Jóns Norðmans, píanóleikara, sem lært hafði við músíkháskólann í Berlín og þótti mjög efnilegur píanóleikari. Síðari konan er Sigrún Eiríksdóttir, Ormssonar, eiganda og framkvæmdarstjóra firmans „Bræðurnir Ormsson h.f.“. Bjarni Jónsson, vígslubiskup, segir í Morgunblaðinu (12. okt. 1963) um Pál sjötugan: „Heima hjá Páli og Sigrúnu“. Það væri efni í fagra ritgerð. Þar er gestrisnin í heiðri höfð, hvort heldur hér eða í Ísólfsskála“ - Páll er höfðingi heim að sækja, allra manna skemmtilegastur, gæddur kímnigáfu og frábærri frásagnarlist. Dóttir Páls og Sigrúnar er séra Anna Sigríður Pálsdóttir.

Í sömu grein segir séra Bjarni ennfremur: „Það er sagt um Pál postula: „Hann er allur í orðinu“. Ég segi um Pál Ísólfsson: „Hann er allur í listinni“ Þar er ekki ritardando, seinkandi eða hikandi, því að hann er semper ardens, brennandi í andanum og aldrei hálfvolgur í áhuganum.“ 

Matthías Johannessen ritstjóri hefur ritað tvær samtalsbækur um Pál Ísólfsson: „Hundaþúfan og hafið“ (1961 ) og „Í dag skein sól“ (1964 ). Bækurnar eru góð heimild um tónskáldið, manninn sjálfan, líf hans og störf. 

 

Páll Ísólfsson lést árið 1974.

 

Úr Tónlistarsögu Reykjavíkur

Páll Ísólfsson.

Elfar Guðni Þórðarson og listaverkið "Brennið þið vitar" með ljós á öllum vitum.

Listaverkið er í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri og var vígt þann 12. október 2002 á afmælisdegi Páls Ísólfssonar 109 ára.

 

Brennið þið vitar -

Smella á þessa slóð - http://www.youtube.com/watch?v=S4e8rQA0OKM

 

Skráð af Menningar-Staður