Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

14.10.2013 05:54

Merkir Íslendingar - Bjarni Þorsteimsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Bjarni Þorsteinsson

 

Merkir Íslendingar - Bjarni Þorsteinsson

 

Bjarni Þorsteinsson, prestur á Siglufirði og þjóðlagasafnari, fæddist á Mel í Hraunhreppi á Mýrum 14. október 1861. Hann var sonur Þorsteins Helgasonar, bónda á Mel og í Skutulsey, síðast í Bakkabúð í Reykjavík, og Guðnýjar Bjarnadóttur í Straumfirði Einarssonar.

Bjarni lauk stúdentsprófum frá Lærða skólanum 1883 og embættisprófi í guðfræði frá Prestaskólanum í Reykjavík 1888. Meðfram námi var Bjarni bæjarfógetaritari, stundakennari við Latínuskólann og heimiliskennari og sýsluskrifari hjá síðar tengdaföður sínum, Lárusi Blöndal, sýslumanni og alþingismanni á Kornsá.

Bjarni var settur sóknarprestur í Hvanneyrarprestakalli í Siglufirði 1888, var veitt brauðið ári síðar og var þar prestur til 1935. Auk þess var hann lengi kennari við Barnaskólann á Siglufirði og hélt, ásamt konu sinni, Sigríði Lárusdóttur Blöndal, uppi miklu söng- og tónlistarlífi á Siglufirði. Þá samdi hann fjölda sönglaga en fjörutíu þeirra hafa verið gefin út. Þar má nefna lög á borð við „Sveitin mín“, „Íslandsvísur“ og „Kirkjuhvoll“ og hann samdi einnig textann við „Það liggur svo makalaust“ sem er sungið á góðri stundu af Siglfirðingum nútímans.

Það sem helst heldur nafni Bjarna á lofti eru rannsóknir hans og söfnun á íslenskum þjóðlögum. Á því sviði vann hann ómetanlegt starf, en þjóðlagasafn hans, Íslenzk þjóðlög, kom fyrst út á árunum 1906-1909.

Bjarni hefur oft verið nefndur höfundur Siglufjarðar en hann skipulagði þar hverfi og teiknaði götur. Stofnað var Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði 2006 til heiðurs honum.

Í eftirmælum um Bjarna í Þjóðviljanum segir: „Bjarni var heillaður af töfrum tónlistarinnar, og þeir, sem þekktu hann, vissu, að hann hafði hug á að helga sig þeim einum. Fjárskortur hindraði, að svo mætti fara, og Bjarni valdi sér annað æfistarf.“

Bjarni Þorsteinsson lést á Landakotsspítala 2. ágúst 1938.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 14. október 2013

 

Skráð af Menningar-Staður