Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

15.10.2013 06:20

Merkir Íslendingar - Jóhannes Sveinsson Kjarval

Jóhannes Kjarval.

 

Merkir Íslendingar - Jóhannes Sveinsson Kjarval

 

Jóhannes Sveinsson Kjarval fæddist á Efri-Ey í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu hinn 15. október 1885, sonur Sveins Ingimundarsonar, bónda þar, og k.h., Karitasar Þorsteinsdóttur húsfreyju. Hann ólst upp frá fjögurra ára aldri hjá hálfbróður móður sinnar, Jóhannesi Jónssyni í Geitavík í Borgarfirði eystra.

Kjarval stundaði sjómennsku til 1911 en hélt þá utan, fyrst til Lundúna en síðan til Kaupmannahafnar þar sem hann lauk prófi í málaralist frá Konunglega listaháskólanum

1918. Þá dvaldi hann á Ítalíu 1920 og í París 1928 en var lengst af búsettur í Reykjavík frá 1922.

Kjarval var meðal frumherja íslenskrar myndlistar og einn virtasti listamaður þjóðarinnar á 20. öld. Verk hans bera með sér expressjónísk og impressjónísk stílbrigði, en þau eru auk þess rammíslensk, oft hlaðin táknum er vísa til íslenskra þjóðsagna, ævintýra og skáldskapar, auk þess sem meginviðfangsefni hans sem listmálara var íslenskt landslag, einkum á Þingvöllum. Þar stóð hann í hrauninu dögum saman og festi landið á striga. Allar skilgreiningar á list Kjarvals með hliðsjón af straumum og stefnum ber svo að taka með þeim fyrirvara að hann var afar persónulegur og frumlegur listamaður.

Kjarval var auk þess mikill teiknari, samanber teikningar hans af íslensku alþýðufólki. Hann myndskreytti ýmis rit og skrifaði sjálfur ýmis rit, s.s. Grjót, 1930; Meira grjót, 1937; Leikur, 1938; Ljóðagrjót, og Hvalsagan frá átján hundruð níutíu og sjö, 1956.

Margt hefur verið skrifað um Kjarval og list hans, s.s. ævisaga hans eftir Indriða G. Þorsteinsson; samtalsbók eftir Matthías Johannessen; Kjarval, eftir Thor Vilhjálmsson, og Kjarval – málari lands og vætta, eftir Aðalstein Ingólfsson.

Árið sem Kjarval lést voru Kjarvalsstaðir í Reykjavík opnaðir en þar eru verk hans höfð til sýnis, skráð og rannsökuð. Kjarval lést 13. apríl 1972.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 15. október 2013 - Merkir  Íslendingar

Jóhannes Kjarval

 

Skráð af Menningar-Staður