Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

16.10.2013 06:02

Merkir Íslendingar - Steán frá Hvítadal

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Stefán frá Hvítadal.

 

Merkir Íslendingar - Stefán frá Hvítadal

 

Stefán fæddist á Hólmavík 16. október 1887, sonur Sigurðar Sigurðssonar, kirkjusmiðs á Hólmavík og víðar, og k.h., Guðrúnar Jónsdóttur. Hann ólst upp á Stóra-Fjarðarhorni og hjá frænda sínum í Hvítadal í Saurbæ.

 

Stefán lærði prentiðn en fékk berkla, missti við það annan fótinn við ökkla og gekk eftir það við staurfót. Hann var í síldarsöltun á Akureyri sumarið 1912, með Þórbergi Þórðarsyni, sem gerði það sumar ódauðlegt í Íslenskum aðli. Þá um haustið sigldi Stefán til Noregs, vann við skipasmíðar, veiktist af lungnaberklum og lá á heilsuhæli. Hann sneri heim 1915, fársjúkur, og átti um skeið athvarf í Unuhúsi.

Í Sjömeistarasögu greinir Halldór Laxness frá því hvernig Stefán hjarnaði þar við, vorið 1918, heyrði í svönum fljúga yfir bæinn, reis þá upp við dogg og orti Vorsól sem hefst á eftirfarandi erindi:

 

Svanir fljúga hratt til heiða,

huga minn til fjalla seiða.

Vill mér nokkur götu greiða?

Glóir sól um höf og lönd.

Viltu ekki, löngun, leiða

litla barnið þér við hönd?

 

Eiginkona Stefáns frá 1919 var Sigríður Jónsdóttir frá Ballará á Skarðsströnd. Þau bjuggu lengst af á Bessatungu í Saurbæ frá 1925 og eignuðust tíu börn. Stefán gerðist kaþólskur árið 1923 og átti stóran þátt í því að koma vini sínum, Steini Steinarr, í kaþólska söfnuðinn.

 

Ljóðabækur Stefáns: Söngvar förumannsins, 1918; Óður einyrkjans, 1921; Heilög kirkja, 1924; Helsingjar, 1927, og Anno Domini, 1930. Söngvar förumannsins er langbesta ljóðabók Stefáns og tímamótaverk. Hún gerir hann að einu fremsta skáldi nýrómantísku stefnunnar og ásamt Davíð Stefánssyni (Svartar fjaðrir, 1919) að helsta boðbera hinnar lífsglöðu, kraftmiklu og rómantísku aldamótakynslóðar.

 

Tómas Guðmundsson gaf út heildarljóðasafn Stefáns, Þórbergur skrifaði um hann, Halldór Laxness í bókinni Af skáldum og Hannes Pétursson í Eimreiðina 1972.

 

Stefán andaðist 7. mars 1933.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 16. október 2013

 

 

Skráð af Menningar-Staður