Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

18.10.2013 22:33

Goðsögn í lagi Unnar Birnu - tengdadóttur Bakkans

 

 

Goðsögn í lagi Unnar Birnu - tengdadóttur Bakkans

 

Ian Anderson, forsprakki rokkhljómsveitarinar goðsagnakenndu Jethro Tull og Íslandsvinur með meiru, spilaði nýlega inn á nýtt lag tónlistarkonunnar Unnar Birnu. Lagið nefnist Sunshine og kemur út á næstu dögum.

„Ég spilaði fyrst með honum árið 2009 á góðgerðartónleikum í Háskólabíói og svo aftur núna í sumar. Við höfum alltaf haldið sambandi, hittumst til dæmis á Ítalíu í fyrra og hann hafði boðist til þess að vinna að einhverju með mér,“ segir Unnur Birna um kynni sín af goðsögninni.

 Lagið varð til á Ítalíu þar sem Unnur var búsett í hálft ár árið 2012. „Ég sat bara úti á svölum með 40 evru gítar og var eitthvað að glamra. Það bjó lítil og ótrúlega krúttleg stelpa á neðri hæðinni og hún var svo mikið sólskin eitthvað - lagið spannst í raun svo bara út frá því. Mig langaði bara að gera eitthvað svona einfalt og grípandi lag.“

 Unnur segir tækifærið að fá að vinna með Anderson einstakt. „Hann er ótrúlega vinalegur og bara algjörlega frábær maður. Maður hefur alveg heyrt að hann geti verið erfiður við hljóðmenn og sviðsmenn og svo framvegis en ég hef aldrei kynnst þeirri hlið á þessu einstaka ljúfmenni.“

Lagið er tekið upp á ýmsum stöðum. Það er að stórum hluta tekið upp hjá Vigni Snæ Vigfússyni upptökustjóra í E7 stúdíó úti á Granda. Pabbi Unnar, Björn Þórarinsson, best þekktur sem Bassi í Mánum, spilaði inn Hammond-orgel á Græna Hattinum á Akureyri og meistarinn sjálfur Ian Anderson rak svo smiðshöggið á verkið og tók upp þverflautu á heimili sínu milli tónleikaferða.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Unnur Birna. Björnsdóttir

Morgunblaðið föstudagurinn 18. okt 2013

 

Skráð af Menningar-Staður