Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

29.10.2013 22:44

Merkir Íslendingar - Sigurður Einarsson í Holti

Sigurður Einarsson.

 

Merkir Íslendingar - Sigurður EInarssoon í Holti

 

Sigurður Einarsson í Holti fæddist á Arngeirsstöðum í Fljótshlíð 29. október 1898, sonur Einars Sigurðssonar, bónda á Fagurhóli í Austur-Landeyjum, á Arngeirsstöðum og víðar, og Maríu, dóttur Jóns Erlendssonar á Arngeirsstöðum, en hann var afi Oddgeirs Kristjánssonar tónskálds.

Sigurður stundaði verkamannastörf og sjómennsku, braust til mennta og deildi þá um skeið herbergi með Halldóri Kiljan Laxness við Laugaveginn. Í Sjömeistarasögu lýsir Halldór hugmyndaflugi og andagift þessa hátt stemmda unga manns sem var lengi dularfull blanda af „rétttrúnaðar“-guðfræðingi og róttækum sósíalista.

Sigurður tók stúdentspróf utan skóla við MR 1922 og lauk embætsisprófi í guðfræði við HÍ 1926. Hann var prestur í Flatey á Breiðafirði næstu tvö árin en sigldi síðan til Kaupmannahafnar, hóf framhaldsnám við Hafnarháskóla, kynnti sér uppeldis- og skólamál og lagðist síðan í ferðalög um Evrópu. Eftir heimkomuna 1930 var Sigurður kennari við Kennaraskóla Íslands, var jafnframt fréttamaður við Ríkisútvarpið 1931-37 og fréttastjóri þar 1937-41. Þá átti hann sæti í útvarpsráði 1943-47 og var auk þess þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn 1934-37.

Sigurður tók við dósentsstöðu í guðfræði við HÍ 1937 eftir einhverja umdeildustu stöðuráðningu sem sögur fara af hér á landi, svokallað Dósentsmál, og gegndi þeirri stöðu til 1944. Þá varð hann skrifstofustjóri á Fræðslumálaskrifstofunni næstu tvö árin.

Sigurður varð sóknarprestur í Holti undir Eyjafjöllum 1946, og gerðu flestir ráð fyrir að þar myndi hann gera stuttan stans eins og víðar. En Sigurður var sóknarprestur undir Fjöllunum til dauðadags við umtalsverða lýðhylli.

Helstu frumsamin rit hans eru Hamar og sigð, 1930; Undir stjörnum og sól, 1953; Fyrir kóngsins makt (leikrit) 1954, Yfir blikandi höf, 1957, og Kvæði frá Holti, 1961.

Sigurður lést 23. febrúar 1967.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 29. október 2013 - Merkir Íslendingar

 

Skráð af Menningar-Staður