Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

31.10.2013 06:12

Safnahelgi á Suðurlandi - Fjölbreytt dagskrá í Sveitarfélaginu Árborg

Dorothee Lubecki er menningarfulltrúi á Suðurlandi og býr á Eyrarbakka.

Hún er hér með Siggeiri Ingólfssyni í Félagsheimilinu Stað.

 

 Safnahelgi á Suðurlandi – Fjölbreytt dagskrá í Sveitarfélaginu Árborg

 

Dagana 31. okt. – 3. nóvember 2013  er Safnahelgi á Suðurlandi haldin í sjötta sinn undir yfirskriftinni „Matur og menning úr héraði“.  Hátíðin hefur vaxið og dafnað frá upphafi og er orðin fastur punktur í menningarlífi Sunnlendinga fyrstu helgina í nóvember ár hvert. Í Sveitarfélaginu Árborg er fjölbreytt dagskrá líkt og áður með föstum árlegum viðburðum í bland við nýja. Allir ættu að finna sér eitthvað til fróðleiks og skemmtunar og vonandi tvinnað þetta tvennt saman.  

 

 Mataruppskriftir í sundlaugunum.

Sundlaugar Árborgar á Selfossi og Stokkseyri verða með uppskriftir í pottunum eins og undanfarin ár. Gestir geta skoðað gómsætar uppskriftir frá starfsmönnum sundlauganna í heitu pottunum. Verkefnið er skemmtilegt, hefur vakið verðskuldaða athygli gesta en þeir geta fengið uppskriftir með sér heim að heimsókn lokinni.

 

Bókasöfn Árborgar á Selfossi og Stokkseyri

Í bókasafninu á Selfossi verða tvær sýninga uppi en Óli Th. Ólafsson sem hefur sýnt í Listagjánni núna í október lokar sinni sýningu fim. 31. okt. Í framhaldinu opnar sýningin „Litbrigði“ með vatnslitamyndum eftir Rósu Traustadóttur.

Draugasögur eiga stóran þátt í helginni og mun Sigurgeir Hilmar segja sögur í bókasafninu á Stokkseyri fimmtudagskvöldið kl. 20:00 og aftur á Selfossi á föstudeginum kl. 18:00. Bókasöfnin verða skreytt á mismunandi vegu en skólabörn á Stokkseyri skreyta safnið þar og á Selfossi verður draugaþema.

 

Tónleikar í Tryggvaskála, Sunnlenska bókakaffið og Héraðskjalasafnið opið

Í Tryggvaskála á Selfossi sunnudaginn 3. nóvember kl. 21:00 verða stórtónleikar Mugison, Jónasar Sig. og Ómars en þeir spila loksins saman á Selfossi. Sunnlenska bókakaffið verður með ljóða og prjónakaffi föstudaginn 1.nóv. milli 17:00 og 18:00. Valgerður Jónsdóttir kynnir bók sína „Vettlingar frá Vorsabæ“ og Bjarki Karlsson les úr nýrri ljóðabók.

Hérðasskjalasafn Árnesinga verður með kynningu á vísna- og myndavefnum fim. og fös.  en nýjum upplýsingum verður bætt inn fyrir Safnahelgina.

 

Lista- og menningarverstöðin Hólmaröst og Veiðisafnið á Stokkseyri

Elfar Guðni sýnir í Gallerí Svartakletti og Valgerður Þóra mosaic á sama stað. Herborg Auðunsdóttir opnar svo vinnustofuna sína á 1.hæð í Lista- og menningarverstöðinni Hólmaröst. Veiðisafnið á Stokkseyri er opið alla helgina á milli kl. 11.00-18.00 og er almennur aðgangseyrir.

 

Byggðasafn Árnesinga  og Konubókastofan á Eyrarbakka

Heilmikil dagskrá er í gangi yfir helgina í Húsinu og Sjóminjasafninu.  Sýningarnar „Ljósan á Bakkanum“ og „Handritin alla leið heim“ eru opnar sem og beitingarskúrinn við Sjóminjasafnið. Mjög merkilegar sýningar en ljósan fjallar um Þórdísi Símonardóttur, ljósmóður á Eyrarbakka og hennar merka starf. Handritin alla leið heim sem er tileiknað skáldskaparfræði þar sem fjallað er um hið mikla söfnunarstarf Árna Magnússonar. Opið er á safninu laugardag og sunnudag frá 14:00 – 17:00 og er aðgangur ókeypis. 

Konubókastofan verður með viðburði alla helgina og byrjar á fimmtudagskvöldinu þegar Anna býður í kaffispjall um ævisögur með yfirskilvitlegu ívafi milli 19:00 og 21:00. Á laugardeginum milli 14:00 og 16:00 mun Jósefína Friðriksdóttir fjalla um Guðrúnu frá Lundi og á sunnudeginum á sama tíma fjallar Katrín Ósk Þráinsdóttir um stelpur í barnabókum.

   

Fleiri fjölbreyttir viðburðir um allt sveitarfélagið

Á Eyrarbakka tekur Hallur Karl á móti gestum í vinnustofu sinni að Litlu-Háeyri á laugardeginum milli 13:00 og 18:00.

Á Stað verður opið sunnudag milli 11:00 og 17:00 en Siggeir hefur sett upp áhugaverða ljósmyndasýningu með gömlum og nýjum myndum frá Eyrarbakka. Einnig verður markaður á Stað á sunnudeginum.

Laugabúð Eyrarbakka verður síðan opin alla helgina frá 11:00 – 17:00 en þar er hægt að finna ýmsa hluti sem og sjá kaupmanninn í hvíta sloppnum.

Á Selfossi er Fischersafnið opið á sunnudeginum milli 13:00 og 16:00 og býður gestum frítt inn í tilefni Safnahelgarinnar. Leikfélag Selfoss sýnir leikritið Maríusögur á fim., fös., og sun. kl. 20:00 í Litla leikhúsinu við Sigtún og er hægt að kaupa miða hjá þeim gegn vægu gjaldi.

Dagskrá Safnahelgar er hægt að nálgast hér að neðan.  Góða skemmtun allir Sunnlendingar.

 

Safnahelgi á Suðurlandi 2013 – dagskrá

 

Sráð af Menningar-Staður.

______________________________________________________________________