Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

23.11.2013 06:37

Merkir Íslendingar - Markús F. Bjarnason

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Markús F. Bjarnason.

 

Merkir Íslendingar - Markús F. Bjarnason

 

Markús Bjarnason, skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavik, fæddist á Baulhúsum við Arnarfjörð 23. nóvember 1849. Hann var sonur Bjarna, útvegsb. á Baulhúsum Símonarsonar, skipstjóra á Dynjanda í Arnarfirði Sigurðssonar. Móðir Markúsar var Sigríður Markúsdóttir, pr. á Álftamýri í Arnarfirði Þórðarsonar, af Vigurætt.

Eiginkona Markúsar var Björg Jónsdóttir húsfreyja, dóttir Jóns Jónssonar, timburmanns á Tjörn á Skagaströnd, og k.h. Bjargar Þórðardóttur, b. á Kjarna við Eyjafjörð. Sonur Markúsar og Bjargar var Sigurjón stjórnarráðsfulltrúi.

Markús var einn sá merkasti af brautryðjendum í skipstjórnarmenntun hér á landi, en skortur á slíkri menntun varð mjög tilfinnanlegur með þilskipaútgerðinni hér við land. Markús var kominn af merkum sjósóknurum, vandist sjálfur sjómennsku frá barnsaldri og var munstraður á þilskip er hann var aðeins sextán ára. Um það leyti fórst faðir hans í fiskiróðri, ásamt tveimur sonum sínum.

Markús flutti til Reykjavíkur um tvítugt varð fljótlega stýrimaður á þilskipi í eigu Geirs Zoëga, lærði stýrimannafræði hjá Eiríki Briem prestaskólakennara en var síðan prófaður af sjóliðsforingjum á danska herskipinu Fyllu með ágætum vitnisburði.

Markús sigldi síðan til Kaupmannahafnar og lærði seglasaum 1873-74, enda mikill skortur á slíkri fagþekkingu við Faxaflóann.

Markús var síðan skipstjóri hjá Geir Zoëga og stundaði seglasaum en sigldi aftur til Kaupmannahafnar og lauk þar hinu minna og hinu meira stýrimannaprófi 1881.

Markús hóf að kenna stýrimannafræði í Reykjavík 1882. Ári síðar festi hann kaup á Doktorshúsinu, (síðar Ránargötu 13) þar sem hann starfrækti skóla sinn.

Stýrimannaskólinn í Reykjavík var síðan formlega stofnaður 1891 og var Markús skólastjóri hans til dauðadags.

Markús lést 28. júní 1900.

Morgunblaðið laugardagurinn 23.nóvember 2013 - Merkir ÍslendingarSkráð af Menningar-Staður