Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

28.11.2013 12:07

Forsetinn kom í heimsókn í Vesturbúðina Eyrarbakka

F.v.: Ari Björn Thorarensen, forseti Bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Árborg og Finnur Kristjánssin, kaupmaður í Vesturbúðinni á Eyrarbakka.

.

F.v.: Björn H. Hilmarsson,  fangavörður og fjárbóndi, Ari Björn Thorarsensen og Finnur Kristjánsson.

 

Forsetinn kom í heimsókn í Vesturbúðina á Eyrarbakka

 

Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Árborg kom á fund Vitringanna í Vesturbúðinni á Eyrarbakka í morgun og færði þær fréttir að Bæjarráð Árborgar hefði samþykkti á fundi sínum í morgun breyttar forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2014.

Í forsendunum er gert ráð fyrir að engar hækkanir verði á gjaldskrám leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu. Verða leikskólagjöld, gjöld fyrir skólavist og gjöld fyrir skólamat óbreytt frá yfirstandandi ári. Er þetta gert til að svara ákalli ASÍ og SA um samstöðu gegn verðbólgu.

Með þessu vill sveitarfélagið leggja lóð sitt á vogarskálar verðstöðugleika og jafnframt létta undir með barna- og fjölskyldufólki. Þá lækkar fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði þriðja árið í röð og fer álagningarstuðullinn úr 0,3% í 0,275%. Bætt fjárhagsstaða sveitarfélagsins gerir því kleift að lækka með þessu álögur á heimilin.

Áfram verður ókeypis fyrir börn og unglinga í sund, bókasöfn og almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins. Þá er beint tilmælum til framkvæmda- og veitustjórnar að farið verði yfir forsendur gjaldskrárhækkana Selfossveitna út frá sömu sjónarmiðum. Allt er þetta liður í að bæta búsetuskilyrði íbúa og stemma stigu við verðbólgu í landinu.

 

Göngustígurinn milli Stokkseyrar og Eyrarbakka

Þá fóru Ari Björn og Vitringarnir yfir þá vitrænu og farsælu ákvörðun í haust þegar ákveðið var að tillögu Ara að göngustígurinn milli Stokkseyrar og Eyrarbakka yrði lagður beinustu leið frá Hraunsá og til Eyrarbakka. Þ.e. að fara nánast sömu leið og farin hefur verið um aldir og reynst vel. 

Ari Björn og Vitringar í Vesturbúðinni í morgun. F.v.: Siggeir Ingólfsson, Trausti Sigurðsson, Ingólfur Hjálmarsson, (standandi), Unnar Gíslason, Björn H. Hilmarsson og Ari Björn Thorarensen.

Skráð af Menningar-Staður