Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

29.11.2013 06:22

Merkir Íslendingar - Gunnar Friðriksson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Gunnar Friðriksson.

 

Merkir Íslendingar - Gunnar Friðriksson

 

Gunnar Friðriksson, forstjóri Vélasölunnar og forseti SVFÍ, fæddist á Látrum í Aðalvík fyrir einni öld - 29. nóvember 1013.

Foreldrar hans voru hjónin Friðrik Magnússon, útvegsb. á Látrum, og Rannveig Ásgeirsdóttir húsfreyja.

Gunnar kvæntist 1940, Unni Halldórsdóttur frá Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá, sem lést 1999. Þau eignuðust þrjú börn en áður eignaðist Gunnar einn son.

Gunnar ólst upp í Aðalvík, sótti barnaskóla á Ísafirði einn vetur og útskrifaðist úr Gagnfræðaskóla Ísafjarðar 1932. Hann hóf útgerð og fiskvinnslu í Aðalvík er hann var 18 ára og stundaði þar útgerð og sjómennsku til 1935. Hann stundaði síðan sjómennsku, verslunar- og verksmiðjustörf í Djúpuvík og í Reykjavík.

 

Gunnar stofnaði, ásamt Sæmundi Stefánssyni, innflutningsfyrirtækið Vélasöluna hf. árið 1940. Það fyrirtæki starfrækti hann í rúm 60 ár.

Hann hóf innflutning á fiskiskipum á fyrri helmingi sjötta áratugarins, jók smám saman þau umsvif og stóð að innflutningi mikils fjölda skipa um árabil. Þá átti hann um skeið hlut í útgerðarfyrirtækjum.

Gunnar var 11 ára er hann kynntist af eigin raun hörmungum hinna tíðu sjóslysa hér við land. Í desember 1924 fórust bræður hans í sjóslysi og þá um haustið fórst á annan tug sjómanna úr Aðalvík, vinir, frændur hans og nágrannar.

 

Gunnar hóf að sinna slysavarnamálum um 1950, var kjörinn í aðalstjórn SVFÍ 1956, sat í stjórn SVFÍ í rúman aldarfjórðung og var forseti félagsins 1960-82. Hann vann að ýmsum öðrum félagsmálum allt frá unglingsárum, átti sæti í stjórn fjölda félaga, en 17 ára var hann fulltrúi á þingi ASÍ.

Gunnar var afskaplega yfirlætislaus og skemmtilegur í viðmóti. Hann hafði yndi af því að skrafa við alþýðufólk frá öllum heimshornum um hagi þess og viðhorf. Hann var alla tíð tengdur Aðalvík sterkum böndum og sendi frá sér prýðilega bók á efri árum, Mannlíf í Aðalvík. Gunnar lést 14. janúar 2005.

Morgunblaðið 29. nóvember 2013 - Merkir ÍslendingarSkráð af Menningar-Staður