Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

30.11.2013 06:38

Merkir Íslendimgar - Jón Ásbjörnsson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Jón Ásbjörnsson.

 

Merkir Íslendingar - Jón Ásbjörnsson

 

Jón Ásbjörnsson, fiskútflytjandi og bridgespilari, fæddist í Reykjavík 30. nóvember 1938. Foreldrar hans voru Ásbjörn Jónsson, verslunarmaður og þekktur bridgespilari, og k.h., Kristrún Jónsdóttir húsfreyja.

Ásbjörn var sonur Jóns, b. á Deildará í Múlahreppi Jónssonar, og Ástríðar Ásbjörnsdóttur.

Kristrún var dóttir Jóns, b. á Þóroddsstöðum í Ölfusi Jónssonar, bróður Ingibjargar, ömmu Karls Guðjónssonar alþm.

Systir Jóns er Fríða Ásbjörnsdóttir, gift Steingrími Baldurssyn en meðal sona þeirra er Héðinn Steingrímsson, fyrrv. heimsmeistari í skák, 12 ára og yngri.

Jón kvæntist Höllu Daníelsdóttur og eru börn þeirra Ásbjörn og Ásdís. Þriðja barn Jóns er Birgir Jóhannes en móðir hans er Herdís Birgisdóttir. Þá var Jón kvæntur um skeið, Hugrúnu Auði Jónsdóttur.

Jón útskrifaðist með verslunarskólapróf frá VÍ 1957 og lauk kennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni 1960. Hann var sundkennari í Hafnarfirði 1960-61 og íþróttakennari við gagnfræðaskóla í Reykjavík 1961-77, lengst af við Gagnfræðaskóla verknáms og síðar Ármúlaskóla. Á vorin réri hann á grásleppu og á sumrin var hann á handfærum.

Jón hóf verslunarrekstur 1977. Hann stofnaði, ásamt fjölskyldu sinni, Fiskkaup hf. 1983, hóf vinnslu á ferskum fiski og síðar saltfiski og fékk fyrstur leyfi til útflutnigs á saltfiski 1990, en einokun hafði verið á þeim útflutningi fram að því.

Jón var í hópi snjöllustu bridgespilara hér á landi en hann var um árabil landsliðsmaður í bridge og margfaldur Íslandsmeistari.

Hann var um skeið forseti Bridgesambands Íslands og ritstjóri Bridge-blaðsins í mörg ár.

Jón var einn af stofnendum SFÚ, Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, 1994, og fyrsti formaður þeirra, sat í stjórn Faxamarkaðarins og í stjórn Útflutingshóps FÍS og var formaður þar 1995-99.

Jón lést 2. október  2012.

Morgunblaðið laugardagurinn 30. nóvember 2013

 

Skráð af Menningar-Staður