Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.12.2013 15:58

Merkir Íslendingar - Thor Jensen

Thor Jensen


Merkir Íslendingar - Thor Jensen

 

Thor Jensen fæddist í Kaupmannahöfn fyrir hundrað og fimmtíu árum - þann 3. desember 1863.  Sonur Jens Christians Jensens byggingameistara, og Andreu Louise Jensens, f. Martens, húsfreyju.

Thor átti 11 systkini og fjórar hálfsystur. Hann var níu ára er hann missti föður sinn, fór í heimavistarskóla fyrir verðandi verslunarsveina og var síðan sendur til Borðeyrar um fermingaraldur.

Thor lærði íslenskuna hratt og drakk í sig Íslendingasögurnar. Á Borðeyri kynntist hann Margréti Þorbjörgu Kristjánsdóttur, sem var eiginkona hans í rúm 60 ár en þau eignuðust 12 börn.

Thor stundaði verslunarrekstur í Borgarnesi og síðan á Akranesi en eftir að skip með vörum hans fórust í hafi varð hann gjaldþrota. Hann flutti þá með fjölskyldu sína til Hafnarfjarðar, gerði ítarlega verðkönnun á ýmsum útgerðarvörum, stofnaði Godthaabs verslun og kom aftur undir sig fótunum með hjálp tveggja gildra útvegsbænda, Guðmundar Einarssonar í Nesi og Þórðar Jónassonar í Ráðagerði. Á örfáum árum varð Thor einn ríkasti maður á Íslandi, byggði sér glæsilegt íbúðarhús að Fríkirkjuvegi 11 við Tjörnina, kom að stofnun Milljónafélagsins 1907, sá um kaup á Jóni forseta, fyrsta togara Íslendinga og var einn af forystumönnum um stofnun Eimskipafélags Íslands.

Thor stofnaði útgerðarfyrirtækið Kveldúlf 1912 sem bar höfuð og herðar yfir önnur útgerðarfyrirtæki á millistríðsárunum. Á efri árum reisti Thor stærsta mjólkurbú á Íslandi að Korpúlfsstöðum, og það fullkomnasta á Norðurlöndum.

Afkomendur Thors urðu margir landsfrægir, s.s. synir hans Ólafur forsætisráðherra, Richard, forstjóri Kveldúlfs og Thor sendiherra. Thor Vilhjálmsson rithöfundur var dóttursonur Thors og Björgólfur Thor athafnamaður er langafabarn hans.

Valtýr Stefánsson ritstjóri skrifaði ævisögu Thors og Guðmundur Magnússon sendi frá sér bókina Thorsararnir, auður, völd, örlög, árið 2005. Thor lést 12. september 1947.

 

Fríkirkjuvegur 11 í Reykjavík

Skráð af Menningar-Staður