Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.12.2013 06:08

Tilboð í fangelsi opnuð í vikunni

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Hólmsheiði.  Fangelsislóðin er tilbúin fyrir byggingarframkvæmdir.

 

Tilboð í fangelsi opnuð í vikunni

 

Tilboð í byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði verða opnuð hjá Ríkiskaupum á fimmtudaginn kemur, 5. desember, klukkan 11.00.

Útboð húseignarinnar og frágangs lóðarinnar var auglýst 17. ágúst sl. Verkinu á að vera að fullu lokið í síðasta lagi 1. desember 2015. Örn Baldursson, verkefnisstjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins, segir að eftir að verktakinn hefur skilað húsinu af sér fari fram virkni- og viðtökuprófanir, en þá eru m.a. prófuð ýmis kerfi nýja fangelsisins. Afhending til verkkaupa, innanríkisráðuneytisins, er áætluð 1. mars 2016.

Jarðvegsframkvæmdir á Hólmsheiði voru boðnar út 9. mars 2013. Nokkuð er síðan vinnu við jarðvinnu og heimlagnir innan lóðar lauk. Vinnu við heimlagnir utan lóðar er nýlega lokið.

 

Rými fyrir 56 fanga

Húsið verður steinsteypt og klætt að hluta. Verktakinn á að ganga frá húsinu að utan og innan og einnig frá lóð þess. Helstu magntölur í útboðinu eru: Mótafletir 17.200 fermetrar, steinsteypa 3.300 rúmmetrar, þakflötur 3.500 fermetrar, málun 21.900 fermetrar og gólfdúkur 2.500 fermetrar.

Verkefnið og saga þess eru kynnt á heimasíðu Framkvæmdasýslu ríkisins (www.fsr.is) sem hefur umsjón með verkefninu. Þar kemur m.a. fram að í fangelsinu verði rými fyrir 56 fanga og að það verði um 3.700 fermetrar að stærð. Fangelsið á Hólmsheiði á að koma í staðinn fyrir Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og kvennafangelsið í Kópavogi. Einnig er gert ráð fyrir að gæsluvarðhaldsdeild á Litla-Hrauni, þar sem eru sex klefar, verði lögð niður og klefarnir nýttir fyrir afplánun.

Efnt var til samkeppni um hönnun nýja fangelsisins. Niðurstöður hennar voru kynntar 5. júní 2012. Fyrstu verðlaun fékk tillagan frá arkitektastofunni Arkís, höfundar Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar. Samið var við vinningshafana um hönnun fangelsisins á grundvelli vinningstillögunnar. Hún gerir ráð fyrir að byggingin verði að mestu leyti einangruð að utan og klædd viðhaldsfríu Corten-stáli. Stjórnunarálma, innigarðar og afmarkaðir veggfletir við útivistarsvæði fá sjónsteypuyfirborð og þakfletir verða lagðir gróðurþekju.

Morgunblaðið þriðjudagurinn 3. desember 2013.

 

Skráð af Menningar-Staður.