Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

04.12.2013 05:40

Ný bók að vestan

Sagan mín, æviminningar Sigrúnar Sigurðardóttur frá Möðruvöllum í Hörgárdal í Eyjafirði.

 

Ný bók að vestan

 

Hjá Vestfirska forlaginu á Þingeyri er komin út bókin  -Sagan mín- æviminningar Sigrúnar Sigurðardóttur frá Möðruvöllum í Hörgárdal í Eyjafirði.
 

Sigrún Sigurðardóttir fæddist 1929 og voru foreldrar hennar Sigurður Stefánsson, prestur og síðar vígslubiskup, og María Ágústsdóttir cand. phil. Vestfirska forlagið hefur gefið út bækur eftir marga höfunda sem aldrei áður hafa fengist við bókaskrif. Sigrún er í þeim hópi. Frásögnin, byggð á dagbókum hennar, er öfgalaus og hlý þó að greint sé hispurslaust frá erfiðu ölduróti á lífsleiðinni.

 

Sigrún skrifar svo:

 

Ég veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma orðið virkilega fullorðin kona, ég hef alla tíð þurft mikla athygli og aðdáun og hef að sama skapi verið dugleg að ná mér í hana. Það hefur verið mér meira virði en flest annað. Er ekki magnað hvað karlmaður getur framkallað hjá konu með því einu að horfa á hana með aðdáun? Það framkallar á augabragði að konan verður fallegri, fær allt í einu nokkurs konar æskuútlit, roða í kinnar og ástleitna ásjónu. Það er þetta sem ég meina, þetta er eins konar næring sem gerir konur aldurslausar. Þær halda bara áfram að geta beitt töfrabrögðum sínum, halda áfram að vera þess umkomnar að geta heillað menn fram eftir öllum aldri. Ég tala af sérlegri reynslu eins og við er að búast.

Skráð af Menningar-Staður