Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

12.12.2013 06:42

Merkir Íslendimgar - Örn Arnarson

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Örn Arnarson.

 

Merkir Íslendingar - Örn Arnarson

 

Örn Arnarson er skáldanafn Magnúsar Stefánssonar sem fæddist í Kverkártungu á Langanesströnd 12. desember 1884. Hann var sonur Stefáns Árnasonar, bónda þar, og Ingveldar Sigurðardóttur frá Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá.

Örn var á þriðja ári er faðir hans drukknaði. Hann ólst upp í fátækt, fór með móður sinni í vinnumennsku að Þorvaldsstöðum en þar hóf hún búskap með bóndanum á bænum.

Örn naut skólagöngu hjá Guðmundi Hjaltasyni á Þórshöfn og var þar fram yfir tvítugsaldur, stundaði síðan kaupavinnu, vegavinnu og sjómennsku, hélt til Akureyrar og var einn vetur í skóla á Grund í Eyjafirði. Hann var síðan einn vetur í Flensborgarskóla 1907-1908, einn vetur í Kennaraskólanum og lauk þaðan prófi vorið 1909.

Örn varð síðan skrifstofumaður, og kennari síðari árin, lengi búsettur í Hafnarfirði.

Örn birti sín fyrstu kvæði í Eimreiðinni árið 1920 og notaði þá fyrst skáldanafn sitt. Hann gaf út kvæðasafnið Illgresi 1924 sem varð mjög vinsælt, enda ljóðmálið létt, alþýðlegt og grípandi. Örn var ekki nýrómantíkus eins og menntaðir samtímamenn hans. Kristinn E. Andrésson skipar honum á bekk með skáldum sem ortu undir eldri áhrifum, s.s. Jakobi Thorarensen og Guðmundi frá Sandi.

Örn var málsvari íslenskrar alþýðu og orti um brauðstrit hennar sem hann þekkti af eigin raun. Þess vegna er grunnt á þjóðfélagsádeilu og beiskju í sumum kvæðum hans þó hann sé oft gamansamur og glettinn á yfirborðinu.

Örn orti í mjög hefðbundnum stíl, bjó yfir mikilli bragsnilld og er feikilega kjarnyrtur þegar honum tekst best upp. Þekktustu kvæðin hans eru sjómannskvæðin Stjáni blái og Hrafnistumenn, Rímur af Oddi sterka, ljóðið um lítinn fugl á laufgum teigi, sem oft er sungið við lag Sigfúsar Halldórssonar, og kvæðið Þá var ég ungur, sem hann orti til móður sinnar skömmu fyrir andlát sitt.

Örn lést 25. júlí. 1942.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 12. dsember 2013 - Merkir Íslendingar

 

Skráð af Menningar-Staður